145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

hagsmunaskráning þingmanna.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég held að það hafi verið mikilvægt skref fyrir okkur á þinginu að afgreiða í samstöðu reglurnar sem fram komu í gær eftir mjög mikla vinnu, og fylgja eftir og fylla út í ramma sem mótaður er af öðrum reglum, eins og reglum um hagsmunaskráningu.

Ég fæ hér tvær spurningar. Fyrri spurningin er sú hvort ég hafi haft þessar upplýsingar sjálfur. Það hafði ég ekki. Fyrri spurningin var sú hvað eðlilegt væri og rétt í þessu samhengi. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst að forsætisráðherra verði sjálfur að gera grein fyrir því hvernig þessu máli var fyrir komið. Við hljótum á endanum að mæla þau mál út frá þeim lögum og reglum sem um efnið gilda.

Ég hef ekki séð neitt annað fram komið í þessu máli en að lögum og reglum hafi verið fylgt. Að því leytinu til er ég ekki í nokkurri stöðu til þess að segja að eitthvað óeðlilegt hafi verið þarna á ferðinni.

En enn og aftur. Það er ekki gott að vera settur í þá stöðu að taka upp mál og svara fyrir það sem aðrir eru langbestir í að svara fyrir. Ég veit að hæstv. forsætisráðherra mun gera það ef eftir því er leitað. Eins og hv. þingmaður sagði. Það hefði verið langbest að hafa hann sjálfan hér.