145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

hagsmunaskráning þingmanna.

[10:55]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágæt svör og tek undir með honum að það hefði vissulega verið eðlilegt og eiginlega sjálfsagt að hæstv. forsætisráðherra hefði verið hér til svara, en svo er ekki.

Ég hjó eftir því í fyrra svari við fyrri spurningu minni að hæstv. fjármálaráðherra talaði um að óæskilegt væri að leyndarhjúpur væri yfir svona málum þegar hann talaði um aflandsreikninga og slíkt. Ég verð að taka undir það með hæstv. fjármálaráðherra, sérstaklega þegar kemur að þinginu, og það er í anda þeirra siðareglna sem við samþykktum í gær og höfum verið að tala um allt frá hruni, að hlutir séu uppi á borðunum, að við séum ekki bara að fullnægja ýtrasta lagabókstaf heldur að við séum með hlutina uppi á borðum almennt.

Við höfum ekki tíma til að fara inn í það, (Forseti hringir.) en því miður er hluti af vandanum sá að við erum föst innan krónu, íslenskur almenningur, (Forseti hringir.) á meðan aðrir, sumir, hafa tækifæri til að komast undan og vera á erlendum gjaldmiðlamarkaði.