145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

hagsmunaskráning þingmanna.

[10:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að það er ekkert óeðlilegt við það að forsætisráðherra sé ekki hér í dag. Hann var hér í fyrri fyrirspurnatíma vikunnar og hafði fyrir löngu boðað að hann yrði ekki viðstaddur þennan fyrirspurnatíma. Það sem er kannski óeðlilegt er að spurningum sem hann varða sé beint til mín. En gott og vel. Ég hef reynt að bregðast við því eins og ég get.

Mér finnst, eins og ég sagði í mínu fyrra svari, vera ánægjulegt og mikilvægt að það sé samstaða um reglur af þessum toga á þinginu. Við megum aldrei gleyma því í hvaða tilgangi þær eru settar og hvaða markmiði þeim er ætlað að þjóna, sem er að gera grein fyrir hagsmunum sem kunna að vera til staðar og mikilvægt er að liggi fyrir og geta eftir atvikum haft áhrif á framgang mála í þinginu. Í þeim tilgangi eru reglurnar smíðaðar og ég hef ekki enn (Forseti hringir.) rekið mig á nein dæmi þess að reglurnar sem hafa gilt um þessi efni hafi með nokkrum hætti verið brotnar.