145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

aðkoma forsætisráðherra að samningum um slitabú föllnu bankanna.

[11:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að ég á nú erfitt með að svara fyrri spurningunni vegna þess að það er í sjálfu sér ekkert í henni sem beinist efnislega að mér, heldur varðar forsætisráðherra, og ég hef í dag eftir bestu getu og á grundvelli þeirra upplýsinga sem hafa komið fram reynt að bregðast við og skýra sýn mína á það mál. En að öðru leyti höfum við gengið út frá því í stjórnsýslunni að þeir sem hafa komið að verkefninu fullnægi öllum kröfum um það, þá er ég að vísa í hin almennu lög sem um efnið gilda fyrir opinbera starfsmenn. Þegar um er að ræða ráðgjafa sem voru fengnir að verkinu utan stjórnkerfisins þá fengum við lögfræðilega ráðgjöf til þess að binda um það fyrirkomulag sérstaklega. Í því tilviki var alveg sérstaklega gætt að hagsmunárekstrum. Ég tel að það hafi verið mjög vel um hnútana búið varðandi aðkomu allra þeirra sem unnu að framgangi áætlunar um afnám haftanna.