145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

svar við fyrirspurn um Borgunarmálið.

[11:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst það mjög leitt en líka mjög óþægilegt og ósanngjarnt að ég þurfi að nota þennan dagskrárlið, óundirbúinn fyrirspurnatíma, til að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um það ekki-svar sem ég fékk við fyrirspurn um sölu Landsbankans á eignarhlut í Borgun. Þá á ég við hið skriflega svar sem kom fjórum, fimm vikum of seint. Ég verð að segja alveg eins og er, eins og ég hef áður sagt úr þessum ræðustól, að þau svör voru mjög loðin, bæði í þeim skilningi að þegar maður rennir í gegnum þau er sumt af því loðið en líka vegna þess að svarið byggist á ljósritum af ljósritum. Það er alls ófullnægjandi og ekki í takt við stjórnarskrá og þingsköp um hvernig svara skuli þeim spurningum þingmanna sem við höfum rétt á að leggja fram.

Ég tek þetta hér til umræðu til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hyggist ekki örugglega taka upp þetta ekki-svar og þessi loðnu svör, vinna upp viðbótarsvar og veita Alþingi svör við þeim spurningum sem ég lagði fram. Þess eru dæmi að það hafi verið gert. Hæstv. fjármálaráðherra ásakaði mig um það hér um daginn, sem ég hef nú kosið að fyrirgefa honum, að ég hafi í einhverju bræðiskasti ekki lesið svarið. Það hef ég gert, og oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, og kemst bara að þeirri niðurstöðu að ég hafi ekki fengið svör við neinum spurningum þarna. Ég var ekkert að spyrja um bréf frá Bankasýslunni, hvorki til fjármálaráðherra né Landsbankans, ég setti fram 12 spurningar og óskaði eftir svörum við þeim.

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra er einfaldlega þessi: Hyggst ráðherrann ekki láta ráðuneytið vinna upp viðbótarsvar sem hann mun þá leggja fram á Alþingi og svara þeim spurningum (Forseti hringir.) sem til hans hefur verið beint?