145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[11:12]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003. Eins og fram kom í umræðunni í gær er málið unnið í mikilli sátt innan hv. velferðarnefndar. Hér greiðum við atkvæði um fjölda breytingartillagna, margar hverjar í mörgum liðum. Það er öll velferðarnefnd sem stendur saman að öllum breytingartillögum um málið og nefndaráliti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka enn og aftur hv. þingmönnum í hv. velferðarnefnd fyrir mikla og góða vinnu við þetta mál.

Frumvarpinu er ætlað að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi en mikilvægt er að markmið með rekstri slíkra félaga sé að flestir geti búið við öryggi í húsnæðismálum og að jafnræði ríki meðal félagsmanna þeirra við kaup á búseturétti.