145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[11:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og kunnugt er þá gagnrýndi ég þetta frumvarp mjög þegar það kom fram og taldi það í raun og veru ekki ganga upp, taldi innri markmið þess stangast á, þ.e. þær leiðir sem voru lagðar til til að ná yfirlýstum markmiðum um gagnsæja stjórnsýslu og jafnræði þegar kæmi að því að sýsla með þessar eignir. Ég vil hins vegar taka það fram að ég tel breytingar hv. efnahags- og viðskiptanefndar til verulegra bóta og hef stutt þær breytingar og tel þá vinnu góða. Það breytir því ekki að meginsjónarmið frumvarpsins sem snýst um að færa umsýslu eignanna yfir í einkaeignarréttarlegt samhengi stríðir enn gegn yfirlýstum markmiðum um jafnræði og gagnsæi, jafnvel þó að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi gert ýmsar breytingar til úrbóta á málinu. Af þeim sökum mun ég styðja breytingar á frumvarpinu en mun sitja hjá og ekki styðja endanlega afgreiðslu málsins.