145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[11:24]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Alþingi er hér eins og ég sagði áðan að samþykkja það að fela fjármálaráðherra að ráðstafa og selja og einkavæða eignir upp á 60–70 milljarða kr. Eins og ég fór yfir áðan þá veit ég ekki til þess að þingmenn hafi nokkurt yfirlit yfir þessar eignir og þeir geta þar af leiðandi ekki tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að selja þær allar eða hvort nýta eigi þær með einhverjum öðrum hætti. Hér kunna að vera eignir í tryggingafélögum sem eru mikið til umræðu í samfélaginu þessa dagana. Hér kunna að vera eignir í einhverjum öðrum félögum. Hér eru undir eignir í fjármálafyrirtækjum, því að Alþingi ákvað að taka það inn í þennan pakka með breytingartillögu við 2. umr., þ.e. ekki bankana sjálfa, heldur eignir í fjármálafyrirtækjum. Það er það sem þingmenn eru að greiða atkvæði um núna, að fela fjármálaráðherra að selja allar þessar eignir hugsanlega upp á 60–70 milljarða kr. án aðkomu þingsins. Með samþykkt þessara laga þá má þingið ekki hafa nein áhrif á framgang málsins heldur aðeins fá upplýsingar til tveggja þingnefnda um það hvernig gengur að selja.