145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mín tilfinning er sú að það sé búið að fylla hróskvótann gagnvart hæstv. utanríkisráðherra og mun ég stilla lofsyrðum í hans garð í hóf. Hins vegar ber að lofa þessa ítarlegu skýrslu sem er vandað plagg. Hún ber þess vott hverjir eru aðstandendur hennar, núverandi ríkisstjórn, sem lítur á hornstein í öryggisstefnu Íslendinga vera NATO. Það sem NATO er að skapi er sett á oddinn, en því sem óþægilegt kann að vera fyrir þetta hernaðarbandalag er haldið til hliðar eða ekki á það minnst. Nefni ég þar sérstaklega ofbeldishrinuna í Tyrklandi sem hefur valdið því að 300 þús. manns eru nú á flótta innan síns lands af völdum ofbeldisaðgerða tyrkneska hersins sem hófust eftir NATO-fundinn í júlílok í Brussel þar sem ákveðið var að gefa grænt ljós eða láta óátalið þótt tyrkneski herinn færi sínu fram í suðausturhluta Tyrklands og í norðurhluta Íraks gegn Kúrdum. Þetta er bara veruleikinn.

Ég hef fylgst með fréttum af útgöngubanni sem ríkir núna í suðausturhluta Tyrklands víða í Kúrdabyggðum, t.d. í höfuðstaðnum Diyarbakir, og staðreyndin er sú að þar hefur verið útgöngubann í stórum borgarhlutum í næstum því þrjá mánuði. Hvað þýðir þetta útgöngubann? Það þýðir að fólki er meinað að fara úr híbýlum sínum, fara til vinnu, jafnvel að afla matar og lyfja og á það á hættu ef það hlítir ekki banninu til að afla þessara lífsnauðsynja að vera skotið á færi. Talið er að frá því ofbeldishrinan hófst hafi 290 manns verið drepnir með þessum hætti af hálfu tyrkneska hersins. Þetta er veruleikinn. Það er talið að í átökunum fram til þessa hafi tæplega eitt þúsund manns, borgarar, fallið. Konur, börn, karlar, óbreyttir borgarar hafi verið felldir. Átökum segi ég, framan af voru þetta fyrst og fremst að því er ég best fæ skilið ofbeldisaðgerðir tyrkneska hersins, en auðvitað er þetta núna að þróast yfir í borgarastríð þar sem báðir aðilar láta til sín taka með hryðjuverkum. Það er að gerast. Það var vitað að þetta mundi verða og er afleiðing þeirrar stefnu sem hefur verið fylgt af hálfu Erdogans forseta og stjórnar hans í Tyrklandi allar götur frá því hann tapaði meiri hluta á þingi í þingkosningunum í byrjun júní í fyrra. Þá var vitað að hann mundi slá á friðarferli sem hafði staðið síðan 2013 og efna til átaka og reyna að afla sér og sínum fylgis með þeim hætti.

Hlutur NATO í þessu er mjög ljótur. Það má segja að Íslendingar séu á óbeinan hátt ábyrgir fyrir þessum hryðjuverkum. Á óbeinan hátt erum við ábyrg. Hvar er þess að finna stað í þessari skýrslu? Hvar er þessa ofbeldis að finna stað í skýrslunni? Það er talað um Úkraínu og það er talað um Austur-Evrópu og slíkar ógnir, en hvergi minnst á það sem NATO er á nokkurn hátt óþægilegt. Ekki minnst á það, ekki orð um það, eða afskaplega lítið alla vega.

Aðeins að NATO, hornsteininum góða í öryggi Íslands. Það er talað um að NATO standi frammi fyrir nýjum öryggisáskorunum. Hverjar eru þær? Jú, þær eru af völdum Rússa í austanverðri Evrópu og það er vísað í ISIS og aðra þætti og þær áherslur innan NATO sem ég hef oft vikið að og lúta að því að NATO gerist sveigjanlegra í öllum sínum háttum. Þetta er stefna sem var mótuð um miðjan 10. áratug síðustu aldar og stimpluð á hálfrar aldar afmæli bandalagsins í Washington 1999 og síðan í kjölfarið á öðrum fundum um að í stað þess að líta á árás á eitt aðildarríki sem öllum bæri síðan að bregðast við þá skyldi horft líka til ógnar og ekki bara á okkar svæði í okkar heimshluta, heldur hvar sem er í heiminum. Hverjum er líklegast til að verða ógnað? Gæti það verið þeim sem ásælist eigur annarra, auðlindir? Það er þess vegna sem ég hef sagt að það skiptir máli hverjir eru við stjórnvölinn í stærstu og öflugustu ríkjunum innan þessa hernaðarbandalags, þá að sjálfsögðu fyrst og fremst Bandaríkjunum, en einnig Bretlandi og fleiri ríkjum. Það skiptir sköpum hver er forseti Bandaríkjanna.

Ég spyr: Gæti verið að sú ógn sem okkar heimshluti kann að standa frammi fyrir innan nokkurra mánaða heiti Donald Trump sem er að gera það gott í forkosningum repúblikana í Bandaríkjunum? Hafa menn hugleitt hvaða afleiðingar það mundi hafa í för með sér ef Donald Trump yrði forseti Bandaríkjanna, maður sem er að hvetja til brota á alþjóðalögum og réttlæta þau? Hvað segir hann um ISIS? Hvernig á að ráða niðurlögum ISIS? Drepa börnin og fjölskyldurnar. „Go after the family.“ Þegar slíkir aðilar eru komnir að borði og komnir að stjórnvelinum í hernaðarbandalaginu NATO, sem er hornsteinn okkar öryggismála, væri þá kominn tími til að endurskoða áherslur íslenskra stjórnmála í utanríkis- og öryggismálum? Ég bara spyr. Þetta er veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og okkur ber að hugleiða í alvöru þegar við mótum öryggisstefnu fyrir Ísland. Okkur ber að gera það vegna þess að við verðum að horfa á hlutina kerfislægt að þessu leyti.

Mig langar til að víkja að viðskiptasamningum, alþjóðaviðskiptasamningum, TiSA-viðræðunum og öðrum samningum sem hæstv. utanríkisráðherra vék að í sínu máli, mér heyrðist vera örlítið vatn í munni þar, hann hlakkaði til að skoða TPP-samningana og TIP, þessa samninga sem Bandaríkjamenn eru að gera yfir Kyrrahafið og síðan vestur um haf við Evrópusambandið, að við hlytum að fá aðgang að þeim líka. Þetta eru samningar sem eru gríðarlega umdeildir. Síðan er það TiSA.

Mig langar til, af því að mig langar líka til að hrósa pínulítið, að þakka fyrir allítarlega umfjöllun um þessa samninga í skýrslunni. Það sem er gott við þessa umfjöllun er að vísað er í þá gagnrýni sem fram hefur komið. Ég er ekki sammála öllu sem þar er sagt, en þar er þó verið að taka á málinu á málefnalegan hátt. Ég vil þakka fyrir það.

Nálgunin, hver er hún? Nálgunin er nálgun markaðssinna. Það segir hér á bls. 31, með leyfi forseta:

„Með GATS-samningnum samþykktu aðildarríki WTO, þ.m.t. Ísland, alþjóðlegar reglur á sviði þjónustuviðskipta sem tryggðu sanngjarna meðferð gagnvart þjónustuveitendum einstakra aðildarríkja þar sem jafnræðis væri gætt.“

Þetta er grundvöllurinn að gagnrýninni sem kom frá fátækasta hluta heimsins, frá verkalýðssamtökum í okkar heimshluta og ýmsum almannasamtökum, að nálgunin skyldi einmitt vera þessi, að tryggja réttlæti fyrir þjónustuveitanda, fyrir fyrirtækin. En spurningin sem hefur verið sett á oddinn af hálfu fyrrnefndra aðila er hin: Hvernig kemur þetta við samfélögin? Það var þess vegna sem árið 2005 var bundinn endir, alla vega tímabundið, á GATS-viðræðurnar sem höfðu staðið frá því um miðjan 10. áratuginn. Þar höfðu verið að borði 123 ríki, en þegar ekki gekk í þeim samningum þá tóku 50 ríkustu þjóðir heimsins sig út úr til að reyna að ná samningum. Eins og sagði í síðustu skýrslu hæstv. utanríkisráðherra þá mætti ætla að þegar ríku þjóðirnar hefðu náð samkomulagi sín í milli þá mundu hin eiga fárra kosta völ annarra en að ganga einnig að skilmálunum.

Það er þetta sem ég hef gagnrýnt sem ósiðlegt atferli. Ég gef ekkert fyrir þær skýringar sem fram koma í skýrslunni að þetta sé eðlilegt að gera vegna þess að allar hinar þjóðirnar sem við erum í bandalagi við og nánustu samkrulli við séu að gera það. Þessi hjarðhegðunarhugsun er ekki góð.

Þetta eru samningar sem eru gerðir á forsendum stórfyrirtækjanna. Það er þess vegna sem þau hafa lagt höfuðkapp á að samningaviðræðurnar séu leynilegar. Íslendingar og íslensk stjórnvöld og núverandi stjórnvöld eru ekki á því að það sé eðlilegt, ég veit það og ég kaupi það alveg sem sagt er hér að þau geta ekki upplýst um tilboð annarra ríkja, geta aðeins upplýst um sína afstöðu, ég skil það. Það breytir því ekki að þessar viðræður sem ættu að vera algerlega fyrir opnum tjöldum, og er ég ekkert að beina gagnrýni sérstaklega að Íslendingum þar, eru það ekki. Þær eru á bak við luktar dyr. Í sumum viðræðuríkjunum fer þetta mjög leynilega.

Í skýrslunni er vikið að ferns konar gagnrýni sem fram hafi komið, í fyrsta lagi um leyndina sem hvílir yfir þessum samningum og síðan, og væri ráð að taka umræðu um það líka, hvernig úrskurðað skuli í deilumálum. Það er sagt að ekki verði að finna ákvæði í þessum samningum þó að ekki sé búið að ganga frá þeim endanum, á þann hátt sem gagnrýnendur hafa vakið máls á, þ.e. að ekki verði útkljáð utan þjóðríkjanna með svokölluðum Investor-State Dispute Settlement. Ég á nú eftir að sjá hversu þessu mun vinda fram, vegna þess að gagnrýnin hefur verið sú að deilumál sem upp koma í tengslum við viðskiptasamninga sem gerðir eru á þessum forsendum, á forsendum alþjóðafjármagnsins, verði ekki útkljáð í réttarkerfi viðkomandi ríkja. Eða verður það gert? Það er ekki gert í GATS-samningunum. Þar er sérstakur dómstóll sem úrskurðar og er hafinn yfir réttarkerfi einstakra ríkja.

Síðan er vikið að því að komið hafi fram gagnrýni að samningurinn snúist um einkavæðingu á almannaþjónustu. Gagnrýnin er nánar tiltekið á að hvatt sé til markaðsvæðingar á henni. Ég er hér með þingsályktunartillögu, mjög ítarlega, um GATS-viðræðurnar á sínum tíma sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð setti fram fyrir nokkrum árum og í tvígang þar sem við lýsum því hvernig þetta ferli sem er sambærilegt við það sem er að gerast í TiSA leiðir til markaðsvæðingar.

Síðan er það orkutengda þjónustan. Ég hef ekki tíma til að fara inn í þann þáttinn, en þar eiga Íslendingar vissulega hagsmuna að gæta í viðskiptaumhverfi í orkutengdum iðnaði. Það sem ég hef gagnrýnt er að það á ekki að stilla ríkjum heims, sérstaklega ekki fátækum ríkjum heims, upp við vegg þannig að (Forseti hringir.) þau eigi ekki annarra kosta völ en að semja eða ganga til samninga (Forseti hringir.)á því sem kallað er sanngjörnum forsendum alþjóðaauðvaldsins. Það er þetta sem við höfum verið að gagnrýna.

Síðan að lokum, (Forseti hringir.) hæstv. forseti. Við þurfum að upplýsa um þessi mál miklu betur. Ég hef lagt fram fyrirspurn um hvað samið hafi verið um í (Forseti hringir.) GATS-viðræðunum og bíð eftir svari við því fljótlega frá utanríkisráðuneytinu. (Forseti hringir.) Við þurfum að taka miklu nánari umræðu um þennan þátt áður en frá nokkru verður gengið, en ráðherrann segir í skýrslunni (Forseti hringir.) að lögð sé áhersla á að ljúka samningum á þessu ári. Áður þarf að fara fram (Forseti hringir.) ítarleg umræða, hæstv. forseti, í þessum sal.