145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að ræða flóttamannamál og hryðjuverkaógnina og fleira sem tengir þessi tvö mál.

Ég vil byrja á því að taka undir eitt sem kemur fram í skýrslunni og mig langar að vitna beint í hana, með leyfi forseta:

„Markmið hryðjuverkaafla er ekki síst að sá fræjum ótta og hrista stoðir grunngilda á borð við frelsi, lýðræði, umburðarlyndi og jöfn réttindi einstaklinga óháð trúarbrögðum eða uppruna.“

Það er hárrétt. Það er markmið hryðjuverkaaflanna. Það er hægt að lesa þeirra eigin efni til þess að komast að þeirri niðurstöðu. Það er yfirlýst markmið.

Flóttamannavandinn í Evrópu er vitaskuld afleiðing stríðs og hryðjuverka og samspils þessara tveggja hluta, ef mönnum tekst að gera skýran greinarmun þar á.

Ég þarf aðeins að fjalla um trúarleg eigindi og biðst ég fyrir fram velvirðingar ef ég fer illa með það. Það er auðvitað alltaf viðkvæmt að tala um trúmál en þau koma málinu við, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er mikilvægt að við getum talað um þau, auðvitað ávallt með virðingu fyrir hinum trúuðu eða trúlausu eða hvernig sem það er.

Nú er það orðið þannig að Sýrlandsstríðið, borgarastyrjöldin í Sýrlandi, er orðin fimm ára. Það er alveg þess virði að muna að þeir atburðir sem þarna eiga sér stað og sú þróun sem hefur átt sér stað gerist í samhengi. Hún gerist í samhengi við þetta svæði. Andstætt því sem margir í vestrinu átta sig á voru landamærin þarna á sínum tíma ákveðin af Vesturlöndum og án tillits til þess hvernig menningarleg og trúarleg uppbygging samfélaganna er á svæðinu. Þá má helst nefna Sykes-Picot línuna sem aðskilur Sýrland og Jórdaníu.

Í þessu öllu saman hafa Vesturlöndin gert veigamikil mistök í gegnum tíðina sem sum hver hafa verið mjög fyrirséð. Mér finnst mjög mikilvægt að við horfumst í augu við það og áttum okkur á því.

Al Kaída hafði enga raunverulega stöðu í Írak fyrr en 2003 þegar innrásin var hafin. Hún var gerð í kjölfar árásanna á tvíburaturnana 2001. Fyrirsjáanlega urðu súnnítar undir þar. Fyrir þá sem ekki vita þá samanstendur Írak af þremur meginþjóðfélagshópum, súnnítum, sjítum og Kúrdum. Þetta eru meira og minna allt múslimar og nokkrar tegundir af þeim, nokkrar tegundir af íslam.

Í ríki íslams, eins og það kallar sig, núna í Sýrlandi er fólk, súnnítar, sem hafa verið í einhvers konar stríði í 13 ár eða jafnvel lengur. Maður má ekki gleyma því að hugarfarið sem hlýtur að eiga sér stað í svona ofboðslega löngum og grimmum átökum er ekki eitthvað sem Vesturlönd eiga auðvelt með að koma sér inn í. Það er ekki eitthvað sem Vesturlönd eiga auðvelt með að taka skynsamlegar ákvarðanir í sambandi við.

Fyrirsjánlega urðu súnnítar undir þegar illmenninu Saddam Hussein var bolað í burtu. Úr því varð togstreita vegna valdatóms sem var fyrirséð og var vitað að mundi gerast, alla vega af gagnrýnendum innrásarinnar. Í því felst engin vörn fyrir Saddam Hussein. En það er mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta er samhengið sem núverandi krísa kemur úr. Það er úr Íraksstríðinu, það er úr hryðjuverkastríðinu svokallaða.

Vel á minnst, hryðjuverkaógnin er ekki mjög ný lengur. Mjög stór hluti heimsins hefur verið í svokölluðu hryðjuverkastríði núna síðan 2001. Þannig að þótt eðli og umfang vandans breytist, og misjafnlega á misjöfnum svæðum, þá er ógnin í sjálfu sér ekki ný. Hryðjuverk hafa átt sér stað af og til allan þennan tíma og reyndar miklu lengur og reyndar alltaf, ef út í það er farið. Það fer eftir því hvernig maður skilgreinir þau nákvæmlega. En við getum ekki látið eins og þetta sé ný ógn. Þetta er ekki ný ógn. Hún er það alla vega alls ekki lengur.

Það er yfirlýst markmið ríkis íslams að búa til togstreitu milli múslima og annarra og þá vil ég fara aðeins inn á flóttamannavandann. Það er því miður oft þannig í umræðunni að flóttamenn eru fordæmdir, iðulega fyrir að vera múslimar og þá er þeim gerð upp einhvers konar hegðun eða skoðanir sem þeir hafa ekki og bent á ríki íslams og viðlíka stofnanir og fólk sett undir sama hatt. Þess vegna er ofboðslega mikilvægt að við áttum okkur á því þegar kemur að flóttamönnum og múslimum og fólki almennt að það er misjafnt. Múslimar eru, tölurnar eru reyndar mjög misjafnar eftir því hvern maður spyr, við getum sagt 1,5 milljarðar eða eitthvað svoleiðis, plús/mínus nokkur hundruð milljónir. Þeir hafa mjög mismunandi skoðanir.

Það ástand sem flóttamenn eru að flýja í Sýrlandi er ástand svokallaðs wahhabisma. Wahhabismi, eins og hann er uppnefndur, er ekki bara íslam, það er líka ofuríhaldssemi, íhaldssemi sem er eiginlega ekki sanngjarnt að nota sama orð yfir og íhaldsmenn á Íslandi t.d. eða í vestrinu, því að þetta er sú hugmyndafræði að fara beinlínis aftur til sjöundu aldar. Það er líka þarna inni í.

Það er enginn sem dæmir múslima jafn hart, fullyrði ég, en ríki íslams sjálft og sambærilegar stofnanir. Þeir sem aðhyllast þá hugmyndafræði finnst mér afskaplega afgerandi í afstöðu sinni og mjög fljótir að dæma. Að mati margra þeirra, ef ekki hreinlega allra, eru aðrir múslimar í raun og veru verri en kristnir og verri en gyðingar vegna þess að wahhabistar líta þannig á þá múslima sem þeir hafa eitthvað út á að setja sem þeir séu að menga trúna, sem er meiri synd en að vera opinberlega kristinn eða opinberlega gyðingur eða eitthvað því um líkt.

Það er ekki hægt að líta á flóttamannavandann einfaldlega sem vestrið, Evrópa, Sýrland, flóttamenn, íslam. Það verður líka að horfa á hann með hliðsjón af því innra samspili sem á sér stað í Miðausturlöndum og hefur átt sér stað í Miðausturlöndum innan raða múslima, sem er ofboðslega stór og fjölbreyttur hópur, og í samhengi við þær ákvarðanir sem vestrið hefur tekið í málaflokknum, mistökin sem t.d. innrásin í Írak voru.

Það er alveg þess virði að minnast líka á þegar Íraksstríðið var til umræðu, og það var reyndar ekki til mikillar umræðu þannig séð, greinilega ekki til nógu mikillar umræðu, áður en yfirvöld á Íslandi ákváðu að styðja þessa innrás. Þá voru sérfræðingar að tala um þetta og það var alveg fyrirséð hvað mundi gerast. Það var fyrirséð og varað við því að innrásin mundi auka hættuna á hryðjuverkum. Þó var farið þarna inn undir þeim formerkjum annars vegar að berjast gegn hryðjuverkum en auðvitað fyrst og fremst til þess að hindra Saddam Hussein í að komast yfir og nýta gereyðingarvopn. Við munum öll hvernig það fór, eða fór ekki öllu að heldur.

Því var spáð að þetta mundi styrkja það litla sem var af al Kaída á svæðinu á þeim tíma. Það var fyrirséð. Það er það sem að gerist ef maður fer ekki varlega með vald. Það getur gerst að maður búi til valdatóm sem einhver mun fylla upp í og mun ekkert endilega gera það friðsamlega. Undir ákveðnum kringumstæðum er óhugsandi að það gerist friðsamlega.

Stuðningur okkar við Íraksstríðið tel ég vera eitthvað sem við þurfum að gera upp. Ísland er nefnt á nafn af ríki íslams. Hvernig komumst við þangað? Það er ekki bara NATO sem veldur því, aðild okkar að NATO. Það er þessi ákvörðun sem meiri hluti Íslendinga var blessunarlega á móti, ef ég man rétt.

Í þessu öllu saman er gríðarlega mikilvægt að viðbrögð vestursins og almennings gagnvart þessum vandamálum sé með áherslu á það sem við eigum að reyna að vernda. Við erum ekki aðeins að reyna að vernda mannslíf. Við erum líka að reyna að vernda frelsið og lýðræðið. Í því sambandi skiptir öllu máli að við víkjum ekki frá þeim grundvallargildum þegar kemur að fólki sem við erum kannski að öðru leyti í meginatriðum ósammála, eða jafnvel að því leyti ósammála. Það er gríðarlega mikilvægt.

En ég skynja því miður meira og meira í umræðunni að það eigi að vera frelsi og lýðræði og að við ætlum að vernda það nema fyrir þennan tiltekna hóp. Þá er oft farið út í miklar blammeringar sem eru misjafnlega vel rökstuddar og heimildir fyrir þeim oft mjög lélegar og múslimar sakaðir um að aðhyllast alls konar hluti sem stundum koma íslam nákvæmlega ekkert við og tilheyra að öðru leyti einungis ákveðnum túlkunum sem meiri hluti múslima hafnar.

Undir svona kringumstæðum, þegar það er mikið af nýju fólki til staðar sem er almennt ekki mjög velkomið í Evrópu, því miður, þá verður til menningarleg togstreita sem er mikilvægt að við reynum að vera sem minnstur hluti af. Auðvitað verður til togstreita þegar ólíkt fólk með ólík sjónarmið og ólíka sýn á heiminn kemur saman. Það þarf ekkert að fara til útlanda eða hitta einhvern sem er annarrar trúar til þess að upplifa það. Það gerist á meðal hvítra kristinna karlmanna á Íslandi. Allir hópar hljóta að kannast við að það verður til togstreita þegar fólk er ólíkt og með ólíkar skoðanir.

En þá er mikilvægt að við áttum okkur á því og bregðumst rétt við. Við megum ekki bregðast við með því að gefast upp á frelsinu og lýðræðinu, vegna þess að það er akkúrat það sem óvinir frelsis og lýðræðis vilja. Það er nákvæmlega það sem stofnanir á borð við ríki íslams vilja, þau vilja búa til togstreitu. Þau vilja setja þetta þannig upp að þetta séu múslimar á móti öllum hinum. Þegar slíkar raddir heyrast í samfélagi okkar eigum við að bregðast ókvæða við.

Það er ein af stóru hættunum að kynt sé undir þeirri hugmynd að frelsi og lýðræði sé aðeins fyrir suma. Það er fyrir alla. Mannréttindi og jafnræði fyrir lögum er fyrir alla. Það eru réttindi sem fólk á að fá fyrir það eitt að vera til.

Það fagnar enginn, fullyrði ég, meira en ríki íslams þegar gengið er á réttindi múslima eða þegar menn vilja ekki að múslimar byggi moskur eða vilja banna þeim að klæða sig svona eða hinsegin eða brjálast af því að þeir vilja ekki borða svínakjöt. Það er reyndar eitt af því sem mér finnst alltaf furðulegt, hvað fólk tekur það rosalega alvarlega ef einhver ákveður að bjóða ekki upp á svínakjöt til þess að sýna múslimum tillit. Eins og það sé eitthvert vandamál.

Ef grunnskóli mundi hætta að bjóða upp á svínakjöt af því bara þá væri öllum nákvæmlega sama, enda skiptir það engu máli. En það eru svona atriði sem fólk lætur fara í taugarnar á sér. Einungis af því að það er öðruvísi, ekki af því að það er hættulegt. Ef skóli tæki upp á því að bjóða aðeins upp á grænmeti er ég ekkert viss um að neinn mundi setja sig sérstaklega upp á móti því, nema kannski sá sem hér stendur.

Það er mikilvægt þegar við ræðum þessi vandamál að við ræðum þau heiðarlega, af yfirvegun og sanngirni og með það að leiðarljósi að umbera eins mikið og við teljum okkur geta umborið, að veita eins mikið, eða tryggja öllu heldur, tryggja eins mikið frelsi og við mögulega getum og halda okkur sem fastast við lýðræðislegar hugsjónir. Við eigum ekki að fara út í þá orðræðu að þessi gildi tilheyri okkur einhvern veginn og aðeins okkur og að við þurfum að passa að halda þeim fyrir okkur. Það er röng nálgun.

Ég nefni þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að þetta skiptir máli. Það hvernig menningin bregst við svona vandamálum skiptir líka máli. Það er ekki aðeins löggjafinn sem þarf að pæla í þessu og það er ekki aðeins framkvæmdarvaldið, það er menningin sjálf. Það er almenningur. Það er umræðan sjálf sem þarf að takast á við slík vandamál. Þess vegna finnst mér mikilvægt að við ræðum þau, ekki aðeins í formi skýrslna og ákvarðana sem hér eru teknar heldur hvernig þessi vandamál snerta samfélag okkar og allra annarra.

Mig langar á þessum lokamínútum að vera smá hugleiðingu um muninn á því þegar brugðist er við flóttamannavandanum þannig að eitt og eitt ríki ákveður að taka þeim opnum örmum versus að fleiri geri það. Þarna er ákveðin togstreita í umræðunni. Fólk lítur til Svíþjóðar og Þýskalands. Það sér fyrir sér einhver hræðileg vandamál þar og vill þess vegna ekki bregðast við eins og Svíþjóð og Þýskaland með því að bjóða sýrlenska flóttamenn velkomna, eins og þær þjóðir gerðu á sínum tíma og var að mínu mati mjög glæsilegt.

Vandinn er ekki sá að Þýskaland og Svíþjóð hafi gert það, vandinn er sá að það var enginn annar sem gerði það, ekki á þann hátt, alla vega ekki þannig að það yrði jafn frægt og ylli þá gríðarlegu álagi á þessi tvö lönd. Ef öll Evrópa, sem er um það bil 500 millj. manns, hefði tekið sig saman um þetta þá hugsa ég að þetta vandamál væri búið á örfáum árum, tveimur, þremur árum. Það væri vissulega miklu minna. Það er svo stór munur á því að hafa einungis úr tveimur samfélögum í Evrópu að velja og öllum. Álagið fer þangað þar sem viðspyrnan er minnst.

Þess vegna óttast ég mjög þá þróun sem virðist vera að eiga sér stað í Evrópu, það er verið að auka viðspyrnuna. Það ætti að vera öfugt. En þá þarf þetta að vera samstillt átak allra þjóða. Það er það sem er svo erfitt við þetta, við getum ekki gert þetta ein. Ekkert ríki getur í sjálfu sér gert þetta eitt nema það sé reiðubúið til að takast á við afleiðingarnar. Ég tek ofan fyrir þeim sem gera það og þykir það aðdáunarvert.

En það er sú hugsun sem við ættum að fara í átt að, meira frelsi, ekki minna frelsi. Meiri lýðræðisleg hugsun, ekki minni lýðræðisleg hugsun. Meira jafnræði fyrir lögum, ekki minna jafnfræði fyrir lögum. Meira tjáningarfrelsi, ekki minna tjáningarfrelsi o.s.frv.