145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um EES. Stefna Pírata í málaflokknum er sú að þjóðin eigi að ráða framtíð landsins þegar kemur að aðild að Evrópusambandinu. Það er rétt að fletta stefnunni upp þannig að hún sé höfð rétt yfir:

„Ef aðildarviðræður um inngöngu Íslands í Evrópusambandið stöðvast, eða aðild verður hafnað af öðrum hvorum aðila, þarf að leitast við endurskoðun á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, til að tryggja betur sjálfsákvörðunarrétt Íslands.“

Í því sambandi held ég að það styttist í að það fari að koma til umræðu um það. En að mínu mati er Evrópusambandsmálið ekkert útkljáð. Það er sömuleiðis stefna okkar að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið um aðild strax á næsta kjörtímabili ef við fáum til þess umboð þjóðarinnar sem ég vona að verði tilfellið.

Hvað varðar NATO þá höfum við ekki ályktað sérstaklega um það hvort Ísland eigi að vera aðili að NATO eða ekki, enda hef ég nú skynjað það þannig að það sé eiginlega bara úr einni átt þar sem einhverjar kröfur koma um að fara úr NATO. Að því sögðu er það eitthvað sem við eigum alltaf að vera að ræða og skoða nánar, vegna þess að eðli sambandsins breytist með tímanum og aðstæður í heiminum.

Hvað varðar mína afstöðu þá finnst mér alltaf í þeirri umræðu þurfa að fylgja, ef menn vilja fara að breyta þar um, hvað þeir ætli að gera í staðinn. Það eina sem ég hef heyrt hingað til, að mig minnir í fljótu bragði, er: Ekkert. Að við séum bara ein á báti og treystum því að nágrannaþjóðir okkar verji okkur ef meira vesen verði með Rússland.

Mér finnst mikilvægt þegar við ræðum um NATO, í samhengi við aðild eða ekki aðild, þá fylgi alltaf með: Ef ekki NATO, þá hvað? Að mínu mati þarf að vera eitthvað annað, það er því miður ekki valkvætt.