145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að skilja hv. þingmann þannig að hann og hans flokkur séu ekki með áform uppi um það að við endurskoðum afstöðu okkar til Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildar okkar að því. Hann talar hins vegar um aðild að Evrópusambandinu og þar hefur flokkurinn, eins og menn þekkja, ályktað að öll skref sem stigin verði verði ákveðin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það liggur samt ekki fyrir hvort þingmenn eða talsmenn þess flokks muni mæla með eða gegn einhverri ákveðinni stefnu í því sambandi eftir því sem ég skildi hv. þingmann.

Aðildin að NATO er staðreynd. Það er rétt hjá hv. þingmanni að andstaða við veru okkar í NATO hefur fyrst og fremst komið frá Vinstri grænum. Þó vek ég athygli á því að á flokksþingi Samfylkingarinnar á síðasta ári var næstum því meiri hluti fyrir því að endurskoða það. Þess vegna er forvitnilegt að vita hvað flokkur sem er að mælast mjög stór í skoðanakönnunum nú yfir meira en 12 mánaða tímabil vill gera í þeim efnum. Ég virði það við hv. þingmann að hann spyrji spurningarinnar: Ef … hvað þá í staðinn? En ég held að það geti skipt máli að vita á hvorn vænginn hann telur að hann og hans flokkur muni halla sér ef til atkvæðagreiðslu kemur hér á vettvangi þingsins eða annars staðar um þau efni.