145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla í upphafi að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta skýrslu sem tekur til flestra þeirra þátta sem snerta utanríkisstefnu okkar Íslendinga.

Utanríkismál hafa að sönnu verið meira í sviðsljósinu á umliðnum missirum en oft áður og ber þar margt til. Fyrst er að nefna að hér á landi hafa verið, eins og menn þekkja, átök um hugsanlega aðild okkar að Evrópusambandinu. Það er ábyggilega rétt sem kom fram í umræðum fyrr í morgun að þau mál munu áreiðanlega koma á dagskrá þó að forsendur hafi mjög breyst frá því að þau mál voru til umræðu á síðasta kjörtímabili.

Til þess að ljúka þeim þætti máls míns vil ég segja að sú þróun og þau vandamál sem hafa komið upp innan Evrópusambandsins á undanförnum árum og missirum eru með þeim hætti að röksemdir þeirra sem hafa viljað inngöngu hljóta að hafa veikst til mikilla muna.

Engu að síður er Evrópusambandið eða Evrópusambandsríkin mikilvægur markaður fyrir vörur okkar og við flytjum mikið inn þaðan. Við höfum margvísleg tengsl sem við getum sagt að séu bæði gömul og byggi á traustum rótum. En við verðum líka að horfa á það að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu fyrir rúmlega 20 árum gerði það að verkum að viðskipti okkar við svæðið og lönd innan svæðisins hafa aukist til muna, bæði í raun og sem hlutfall af utanríkisviðskiptum okkar.

Það skiptir því miklu máli fyrir okkur að eiga góð samskipti á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins. Þó að það fyrirkomulag sem komið var á með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði sé langt frá því fullkomið og aðkoma okkar að því hljóti alltaf að vera til umræðu, þ.e. hvort hagsmunum okkar sé betur borgið þar innan dyra eða ekki, þá er engu að síður ljóst í mínum huga að aðrir betri valkostir eru ekki í boði fyrir okkur hvað varðar hagsmuni okkar á þessu sviði en áframhaldandi aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði.

Við verðum að vinna í göllunum, laga það sem þarf að laga í þeim efnum og gæta að grundvallarhagsmunum okkar í því sambandi. En ég hef ekki í þeim umræðum sem hafa átt sér stað á umliðnum árum séð betri kosti eða betra fyrirkomulag á tengslum okkar en við höfum að þessu leyti. Tek ég þá aftur fram að það fyrirkomulag er ekki gallalaust.

Stór þáttur utanríkisstefnu okkar og þáttur sem hefur fengið meiri athygli á undanförnum árum, því miður, leyfi ég mér að segja, er öryggis- og varnarmálaþátturinn. Ég segi því miður vegna þess að tilefnin eru ekki jákvæð. Það hafa átt sér stað breytingar, bæði í Evrópu og í næsta nágrenni Evrópu sem gera það að verkum að ógnir sem steðja að Vesturlöndum hafa aukist. Hér hefur í umræðunni verið vikið að breyttri og herskárri utanríkisstefnu Rússa sem birtist skýrlega í innlimun þeirra á Krímskaga, afskiptum þeirra af málefnum austurhluta Úkraínu og hernaðaruppbyggingu víðar, m.a. á landamærum bandalagsríkja okkar í NATO eins og Eystrasaltsríkjanna og Póllands.

Þá ber líka að horfa á það og það snertir okkur líka með beinum hætti að á síðustu árum hefur orðið mikil hernaðaruppbygging að nýju af hálfu Rússa á norðurslóðum. Það leiðir óhjákvæmilega til þess að staða Íslands og þátttaka bandalagsríkja okkar í vörnum hér er komin meira á dagskrá aftur en hafði verið um langt skeið.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að það hafi verið misráðið af bandarískum stjórnvöldum að leggja niður varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli með þeim hætti sem gert var 2006. En ég fagna því hins vegar að skilningur virðist fara vaxandi meðal þeirra sem um þessi mál véla í bandaríska stjórnkerfinu á að þörf sé á auknum viðbúnaði hér.

Auðvitað er enginn að tala um við þessar aðstæður að varnarstöðin verði byggð upp með sama hætti og var á árum áður, en t.d. aukin viðvera flugsveita frá Bandaríkjunum og öðrum bandalagsríkjum hér held ég að sé mikilvæg í ljósi þess að landfræðileg staða Íslands og uppbygging Rússa á norðursvæðunum hafi farið vaxandi.

Ég held að óhjákvæmilegt sé og mikilvægt að við vinnum áfram að því sem gert hefur verið í þeim efnum með viðræðum við bandarísk stjórnvöld. Þó að ekki verði á róttækar eða dramatískar breytingar á næstunni, fyrirsjáánlega, held ég að aukin viðvera til dæmis kafbátaleitarvéla sé mikilvægur þáttur í vörnum okkar og um leið framlag okkar til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins.

Atlantshafsbandalagið hefur að mínu mati enn mikilvægara hlutverki að gegna nú en hefur verið á umliðnum áratugum. Ég vísa aftur til þeirra atburða sem hafa átt sér stað í austurhluta Evrópu og sunnan við Evrópu, eins og menn þekkja í Miðausturlöndum og á því svæði. Þegar ógnir steðja að sem geta birst með ýmsum hætti, beinum hernaðaraðgerðum, óbeinum aðgerðum sem menn hafa stundum talað um sem blandaðan hernað, hvort sem um er að ræða tölvuhernað, hryðjuverkaárásir, stuðning við uppreisnarhópa eða eitthvað slíkt, þá er afar mikilvægt að fyrir hendi sé skipulag og viðbúnaður sem getur brugðist við því.

Atlantshafsbandalagið hefur verið að taka ákvarðanir sem má segja að séu til þess fallnar að laga starfsemi bandalagsins að þessum veruleika og Ísland hefur stutt það. Ég held að þeim stuðningi af hálfu okkar sé haldið áfram og það sé undirstrikað að við eigum samleið með þessum bandalagsríkjum okkar í þeim efnum.

Að því sögðu vil ég nefna sérstaklega mál sem hefur verið umdeilt hér á undanförnum missirum og það er þátttaka okkar í takmörkuðum þvingunaraðgerðum gegn Rússum vegna Krím og Austur-Úkraínu. Ég held að það mál verði að skoða í samhengi við mikilvægi samstöðu Vesturlanda og ég held að óhjákvæmilegt sé fyrir okkur sem aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu, þátttakanda í hinu Evrópska efnahagssvæði, að fylgja bandalagsríkjum okkar að þessu leyti. Allt rof í samstöðu að þessu leyti gefur þeim öflum byr undir báða vængi sem vilja brjóta niður þá samstöðu. Ég tel að Ísland eigi ekki að stíga nein skref sem hægt er að túlka þannig að við séum að rjúfa samstöðuna.

Afleiðingar innflutningsbanns Rússa eru verulegar, umtalsverðar og sársaukafullar hér þótt ég hafi á tilfinningunni að í upphafi hafi afleiðingarnar að einhverju leyti verið ofmetnar. Það má hins vegar ekki verða til þess að við rjúfum þá samstöðu sem við höfum litið á sem hornstein í okkar öryggis- og varnarmálastefnu síðustu áratugina.