145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru nokkur atriði. Í fyrsta lagi eru það ekki aðeins við sem metum ógnina af Rússum meiri en verið hefur um langt skeið. Það er sameiginlegt mat þeirra bandalagsríkja okkar sem að þessu koma innan Atlantshafsbandalagsins og reyndar einnig hlutlausra ríkja eins og Svíþjóðar og Finnlands. Það er vert að hafa í huga í þessari umræðu að samstarf Svíþjóðar og Finnlands hefur aukist á undanförnum árum. Umræður í þeim tveimur löndum, sem hafa lengi byggt á hlutleysi sem einni meginstoð utanríkisstefnu sinnar, hafa vaxið mjög um það hvort þau eigi samleið með Atlantshafsbandalaginu eða ekki.

Ástæðan fyrir því er sú að menn hafa séð meiri umsvif og meiri ógnir sem stafa frá rússneskum stjórnvöldum. Staðan er líka sú að ýmsir aðrir nágrannar Rússa hafa áþreifanlega fundið fyrir breytingum í utanríkisstefnu þeirra, jafnvel svo að hægt sé að tala um afturhvarf til þeirrar stefnu sem var ríkjandi á tímum Sovétríkjanna og dæmin frá Georgíu og Úkraínu eru lýsandi fyrir það.

Varðandi aukinn varnarviðbúnað hér er ég ósammála hv. þingmanni um að það setji okkur í þau spor að vera að stigmagna vandann. Ég held að það séu eðlileg viðbrögð við breytingum sem hafa orðið í umhverfi okkar, breytingum sem við báðum ekki um en eru að verða.