145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir þær vangaveltur hv. þm. Frosta Sigurjónssonar að við þurfum í ljósi breyttra aðstæðna að fara yfir allar hugsanlegar sviðsmyndir í þessu sambandi.

Ég er þeirrar skoðunar að Schengen-samstarfið hafi lengst af verið okkur hagfellt. Ég hef hins vegar áhyggjur af því hvernig það er statt í dag og er ekki einn um það. Eins og hv. þingmaður vitnaði til hafa leiðtogar ýmissa Evrópuríkja lýst sambærilegum áhyggjum vegna þess að álagið á kerfið er margfalt meira í dag en þegar það var hannað og sett upp.

Aðstæður eru töluvert mikið breyttar. Við sjáum það meðal annars í því að einstök aðildarríki hafa í auknum mæli farið að nýta sér möguleika til undanþágu frá vegabréfalausri för yfir landamæri og sett upp eftirlit á landamærum sínum sem á sér ekki fordæmi í hinni skömmu sögu Schengen-samstarfsins, því að það er ekki nema rúmlega 15 ára gamalt.

Schengen-samstarfið byggir á tveimur stoðum. Annars vegar er það landamæraeftirlit sem byggir á því að það sé eftirlit við ytri landamæri en frí för innan svæðisins. Svo er einnig um að ræða mikilvægt samstarf á sviði lögreglu- og dómsmála. Ég mundi segja að það samstarf væri áfram mjög mikilvægt fyrir okkur. Ef breytingar verða á Schengen-samstarfinu eða þátttöku okkar í því tel ég mikilvægt að viðhalda þeim þætti samstarfsins.

Þetta álag og þær breytingar sem hafa orðið eru hins vegar þess eðlis að við getum ekki horft fram hjá (Forseti hringir.) þeim og þurfum með einhverjum hætti að bregðast við.