145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðari punktinn sem hv. þingmaður nefndi um EES þá hefur verið ákveðin viðleitni af hálfu Alþingis og alþingismanna um nokkurra ára skeið að auka þátttöku og aðkomu þingsins að undirbúningi mála á fyrri stigum, þannig að aðkoman sé ekki einungis aðkoma embættismanna heldur líka aðkoma Alþingis. Þetta hefur gert það að verkum að ferli þessara mála hefur að einhverju leyti þyngst en ég held að mikilvægt sé að þróa þetta áfram, eins og menn hafa gert í raun og veru alveg frá því að skýrsla Evrópunefndar kom út árið 2006 eða 2007. Það felur þá í sér meiri lýðræðislega þátttöku í ákvarðanferlinu á fyrri stigum en áður var. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að þróa áfram.

Hvað varðar Schengen held ég að ég sé ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli þótt ég segi að ég viti til þess að innan innanríkisráðuneytisins og á vegum innanríkisráðherra hafi verið unnið að stefnumótun á þessu sviði sem með einhverjum hætti ætti að svara þeim áhyggjum sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur í þeim efnum. Eftir upplýsingum mínum er von á því að innanríkisráðherra flytji þinginu skýrslu, sem meðal annars kemur inn á þessi efni, fljótlega eftir páska. Þessi mál hafa verið til skoðunar en það er líka mikilvægt að fá þau til umræðu í þinginu svo að við getum skipst á skoðunum um þau og spurt þeirra spurninga sem nauðsynlegar eru í því sambandi.