145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:26]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er nánast hending að utanríkismál séu rædd á þingi þannig að það er ágætt að hér skuli liggja fyrir 114 síðna skýrsla um utanríkismál, það sem á dagana hefur drifið frá síðasta ári og jafnvel enn þá frekari umfjöllun.

Alþingi Íslendinga er heldur upptekið af búksorgum dagsins ellegar ýmsu heimilisböli sem yfir landið gengur, en það er hins vegar full þörf á því að ræða utanríkismál. Þau eru ef til vill hluti af grundvelli tilvistar sjálfstæðrar þjóðar. Það hefur nefnilega vakið undrun mína á undanförnum árum, frá því að ég settist á þing, hvað fulltrúar ýmissa erlendra þjóða hafa lagt mikla áherslu á að þau lönd sem þeir eru fulltrúar fyrir eigi aðild og aðgang að ýmsum alþjóðastofnunum. Það sem hæst ber af þeim stofnunum, meðal Evrópuþjóða, eru NATO og Evrópusambandið. Ýmsar þær þjóðir sem voru áður aðilar að Varsjárbandalaginu ellegar þá þjóðir fyrrum Júgóslavíu og hafa orðið sjálfstæðar hafa leitað eftir aðild að báðum þessum samtökum og líta á það sem nánast fullnaðarsigur í sjálfstæðisbaráttu sinni að hafa öðlast aðild þar.

Þetta er mér verulegt umhugsunarefni því að reyndar var það svo á upphafsárum lýðveldisins að Ísland gerðist aðili að NATO og mér sýnist að utanríkisstefna á Íslandi hafi nánast verið grundvölluð á aðild að NATO. Reyndar er það svo að eftir 1960 var farið að leita eftir aðild að fríverslunarsamtökum og niðurstaðan varð sú að Ísland gerðist aðili að EFTA, fríverslunarbandalagi Evrópu, eftir harkaleg átök hér í þingi þar sem stjórnarmeirihluti greiddi atkvæði með, þáverandi Alþýðubandalag greiddi atkvæði á móti og Framsóknarflokkurinn sat hjá. Nú er það svo að flestir flokkar á þingi dásama aðildina að EFTA sem einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu og vissulega er aðildin að EFTA og Evrópsku efnahagssvæði hluti af og eiginlega grundvöllur utanríkisviðskipta hér.

Það eru einmitt þessi frjálsu viðskipti sem okkur varða miklu en öryggismál varða okkur einnig nokkru. Mér hefur orðið umhugsunarefni þær ógnir sem steðja að í heiminum í dag. Ein kann að virðast nokkuð fjarlæg en hún er sú að austur í Asíu er lítið land sem lætur undarlega, Norður-Kórea, og hefur byggt upp eldflaugabúnað sem menn vita ekki alveg hversu öflugur er en telja þó að séu langdrægar eldflaugar. Það vill svo til, ef grunur manna er réttur, að ef langdrægustu eldflaugum Norður-Kóreumanna yrði skotið á loft er styttra til höfuðborgar Íslands, Reykjavíkur, en höfuðborgar Bandaríkjanna, Washington. Ógnin er lifandi.

Það sama gildir um ógnir í Evrópu. Þau lönd sem áður voru hluti af Ráðstjórnarríkjunum, Eystrasaltslöndin, telja að öryggi þeirra sé best borgið með aðild að NATO. Ég tel að við höfum þar ýmislegt fram að færa og okkur beri að styðja Eystrasaltsríkin til sjálfstæðis eins og við höfum gert alla tíð. Ekki verður það borið á hæstv. utanríkisráðherra að hann hafi dregið af sér í þeim efnum.

En varnarmálin eru vissulega hluti af norðurslóðastefnu vegna þess að uppbygging Rússlands á norðurslóðum, hvað er hún vegna hernaðarþátta? Hvað er hún vegna samgangna í Norður-Íshafi? Það veit ég ekki. Síðan eru náttúrlega aðrar ógnir eins og hryðjuverkaógnir í Evrópu. Hvenær koma þær til Íslands? Hryðjuverkaógnir eru lifandi ógnir í þeim löndum sem standa okkur næst. Það hafa verið gerðar hryðjuverkaárásir í Bretlandi, Danmörku, Frakklandi. Það er viðvarandi vakt í Þýskalandi og Belgíu.

Þetta vildi ég rifja upp. Síðan ætla ég að nefna að í utanríkismálunum hefur mér alloft fundist að lögð sé megináhersla á það hver ágóðinn sé af utanríkisstefnunni. Hver er ágóðinn? Og hann er reiknaður. Hvað getur landið haft út úr þátttöku í varnarviðbúnaði? Ég hef hins vegar lagt það svo upp að Ísland hefur upp á margt að bjóða. Ísland verður að hætta að horfa á þátttöku í alþjóðasamtökum sem beinlínis þiggjandi og reikna þetta út frá beinum ágóða og skoða líka hvað Ísland getur lagt til til þess að bæta mannlíf meðal þeirra þjóða sem við viljum eiga samstarf við og jafnvel fleiri þjóða og jafnvel alls mannkyns.

Þá vil ég nefna að Ísland hefur ýmislegt fram að færa með formlegum hætti og á ég þar við háskóla Sameinuðu þjóðanna. Ég fagna því að það er boðað í þessari skýrslu að hér verði sett á stofn alþjóðleg stofnun Sameinuðu þjóðanna til að hýsa þær fjórar einingar háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hér eru starfandi. Friðargæsla er vissulega hluti af starfi Sameinuðu þjóðanna en það kann líka að vera að þörf sé á að efla þekkingu á sviði jarðhita, fiskveiða, jafnréttismála og síðast en ekki síst landgræðslu.

Að síðustu ætla ég í ræðu minni að nefna það að ég tel að staða Íslands varðandi þvingunaraðgerðir vegna Úkraínu, sú afstaða sem Ísland hefur tekið, sé rétt og eðlileg í því samhengi sem Ísland er í. Upphaf þessara aðgerða er ekki hjá Evrópusambandinu eins og sumir hafa haldið fram. Upphaf þessara aðgerða er hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og síðan eigum við aðild að þessu, vissulega, í gegnum og með Evrópska efnahagssvæðinu, en aðrar þjóðir sem taka þátt í þessum þvingunaraðgerðum eru Bandaríkin, Kanada, Ástralía, Japan. Það er einungis verið að biðja um það í þvingunaraðgerðunum að ákvæði Minsk-samkomulagsins um Úkraínu verði haldið. Annað er það nú ekki. Viðbrögð Rússa tel ég að séu miklu fremur af efnahagslegum toga runnin en því að landið ætli sér hernað, þetta sé refsiaðgerð af þeirra hálfu. Þetta er fyrst og fremst aðgerð af þeirra hálfu vegna efnahagsaðstæðna, olíuverð hefur fallið um sirka 50% og þetta efnahagsveldi sem eitt sinn var Rússland um tíma þarf að vera sjálfu sér nægt með matvæli. Því er nærtækast að hætta að flytja inn matvæli. En ég vil líka vekja athygli á því að engar hömlur eru á innflutningi á ýmsum betri varningi frá evrópskum framleiðendum sem hentar háhirð í Rússlandi.

Að lokum vil ég nefna að ég tel rétt og eðlilegt að efla utanríkisþjónustu, bæði í öryggis-, varnar- og viðskiptamálum og sömuleiðis að Ísland geti lagt fram hluta af þeirri þekkingu sem hér verður til til að bæta mannlíf í veröldinni.

Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu með þeim orðum.