145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar um utanríkis- og alþjóðamál. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra ítarlega og vandaða skýrslu og jafnframt vil ég þakka honum fyrir mjög greinargóða framsögu. Reyndar hefur sá hluti umræðunnar sem ég hef náð að fylgjast með í dag verið afar góður og svo sem ekki þörf á að fara í mikla ræðu um skýrsluna, enda búið að gera grein fyrir flestum þáttum hennar, eftir framsögu hæstv. ráðherra fyrr í dag.

Ég ætla þó að fá að nýta þennan tíma til að tala almennt um skýrsluna og það sem stendur mér nær í þingstörfum. Hæstv. ráðherra fór í framsögu sinni í margt af því sem verið hefur í deiglu heimsmálanna síðasta árið, helstu verkefni okkar á vettvangi utanríkis- og alþjóðamála. Í skýrslunni er farið ansi víða og er hún viðameiri en svo að ég geti komið að öllu því sem áhugi er fyrir. Ég ætla að ræða almennt um helstu þættina út frá framsögu hæstv. ráðherra en koma svo að tveimur þáttum sem standa nær mér í þingstörfum mínum.

Í fyrsta lagi er það það sem snýr að samstarfi okkar á vettvangi Evrópusambandsins í gegnum EFTA og starfs íslensku þingmannanefndarinnar, þar sem ég á sæti, og í öðru lagi starf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, en ég átti þess kost að sækja þær heim og hitta fastanefndina okkar í New York.

Í skýrslunni er sú nýbreytni að þar má finna markmið, sem ég tel framfaraskref horfandi til skýrslugerðar, bæði er horft til markmiða og litið til framtíðar. Hæstv. ráðherra fór vel yfir öryggismál og hversu mikilvægt það er borgurum að þau séu í lagi. Við búum að mörgu leyti í breyttum heimi þar sem ógnir á borð við hryðjuverk steðja að. Eins og tilgreint er í skýrslunni ógna atburðirnir í París og Kaupmannahöfn til að mynda lýðræði og frelsi um gjörvallan heim, ekki aðeins þar sem sem þeir hræðilegu atburðir áttu sér stað. Þjóðaröryggisstefna er okkur þess vegna afar mikilvæg og samvinna við alþjóðastofnanir á því sviði. Það hefur örugglega sjaldan eða aldrei í því samhengi verið jafn mikilvægt að marka þjóðinni slíka stefnu um öryggi og viðbúnað til varnar og sem stoð í þeirri stefnu er auðvitað samstarfið við Atlantshafsbandalagið og varnarsamningurinn við Bandaríkin.

Frelsi, lýðræði og mannréttindi eru undir þegar barist er fyrir friði og öryggi. Upplausnin og ófriðurinn í Miðausturlöndum og sá mikli flótti og straumur flóttamanna þaðan, í raun og veru þjóðflutningar, eru okkur mjög hugleikinn þar sem allir verða að taka á sig ábyrgð og taka þátt í að leysa vandann, bæði með því að taka við fólki og aðstoða fólk í neyð sem hefst við í flóttamannabúðum við mjög þröngan kost. Íslensk stjórnvöld hafa að mínu viti, virðulegi forseti, tekið skynsamlega á málum með þeirri ráðstöfun að veita 2 milljarða með markvissum hætti til þessa verkefnis, bæði til að taka á móti fólki frá þessum svæðum og til að veita stuðning í gegnum þær alþjóðastofnanir sem starfa á vettvangi í flóttamannabúðunum sjálfum.

Ég ætla að koma aðeins að ferð sendinefndar þingsins á vettvang Sameinuðu þjóðanna. Það hitti þannig á að það var á 70 ára afmælisári Sameinuðu þjóðanna. Ég ítreka að það er afar mikilvægt, og ég sá það betur en áður þegar ég fékk tækifæri til að heimsækja Sameinuðu þjóðirnar, að efla tengsl Alþingis við starf fastanefndarinnar og það mikilvæga starf sem fram fer á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég get sagt það hér að ég öðlaðist alveg nýja sýn á það starf og ekki síður trú á starfið sem skilar sér án vafa og er afar mikilvægt í þeirri viðleitni að tryggja frið, frelsi, lýðræði og almenn mannréttindi.

Það er mér ofarlega í huga eftir þessa ferð að heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun voru samþykkt. Það var í september, mánuði áður en sendinefnd þingsins heimsótti Sameinuðu þjóðirnar. Þetta er afar merkur áfangi, þessi umbreyting heimsins eins og það er orðað, áætlun um sjálfbæra þróun til ársins 2030. Það eru hvorki meira né minna en 17 aðalmarkmið og 169 undirmarkmið sem öll ríkin 193 hafa einsett sér að vinna að í því augnamiði að bæta hag allra íbúa jarðar samhliða því að gæta sérstaklega að umhverfinu. Það var mikil upplifun að fá að hitta fólkið sem stóð að þeirri stefnumótun og lék lykilhlutverk þar, fá tækifæri til að funda með því og fara yfir aðdragandann og vinnuna að þessari samþykkt og sannfærast um að aðkoma okkar að samningaviðræðunum er mikilvæg. Markmiðin eru vissulega metnaðarfull og spanna vítt svið, félagslega, efnahagslega og ekki síst á sviði umhverfismála. Það ásamt því að vinna að jöfnuði og gegn fátækt má kannski fullyrða að sé á meðal stærstu viðfangsefna heimsbyggðarinnar. Hæstv. ríkisstjórn hefur fylgt því eftir með aðgerðaáætlun og er það vel.

Ég sé að tíminn líður mjög hratt. Af því að ég á sæti í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og ESB vil ég koma að utanríkisverslun og viðskiptum og árétta það sem þegar hefur komið fram í ræðum margra hv. þingmanna, sem er mikilvægi samstarfs okkar með hinum EFTA-þjóðunum og aðild að bæði EFTA-samstarfi og EES-samningnum við Evrópusambandið. Við erum í eðlinu innflutnings- og útflutningsháð þjóð og þess vegna er þessi samningur okkur afar mikilvægur, ekki einvörðungu þau viðskipti sem eiga sér stað við Evrópusambandið. Það er auðvitað stærsta viðskiptasvæði okkar, eins og kemur fram í skýrslunni, 73% af útflutningsverðmætum eru til komin vegna viðskipta við lönd innan Evrópusambandsins.

Eins og mál eru að þróast á vettvangi viðskipta eru tvíhliða samningar unnir á vettvangi EFTA ekki síður mikilvægir. Það er virkilega vel farið yfir öll utanríkisviðskipti og aðkomu allra stofnana, þetta er risastórt samvinnuverkefni margra aðila, og það hvaða samningar eru undir í náinni framtíð.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þakkir fyrir skýrsluna. Þetta er afar gagnlegt plagg og mikilvægar upplýsingar og í henni er sú vinna sem er unnin á þessum vettvang dregin vel saman.

Í lokin vil ég aðeins minnast á borgaraþjónustuna og koma inn á hversu mikilvægt það er að við sem lítil þjóð og ekki stór í umfangi í utanríkisþjónustu eigum í samstarfi við hinar norrænu þjóðirnar. Ekki síður mikilvægt er hlutverk kjörræðismanna, sem eru 240 talsins og starfa í einum 90 ríkjum, og allt það mikilvæga starf sem þeir vinna, sú ómælda vinna í þjónustu fyrir land og þjóð og það án þess að þiggja laun fyrir.