145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað um þessa skýrslu. Umræðan er búin að vera mjög málefnaleg og góð. Auðvitað er það svo þegar við fjöllum um málaflokk eins og utanríkismál að ýmsar spurningar vakna eða í það minnsta vangaveltur. Menn sjá hlutina með ólíkum augum sem er eðlilegt og það er í rauninni mjög gott held ég að við heyrum gagnrýnisraddir um ákveðna hluti í utanríkisstefnunni og hvernig hún er höndluð. Komið hefur fram hjá nokkrum þingmönnum að um grunnatriðin er mikil samstaða. Það er mjög mikilvægt og það er mikill kostur. Útfærslan, þ.e. hvernig við högum svo vinnu okkar innan þess ramma, er að sjálfsögðu ætíð breytileg eftir ríkisstjórnum og þess vegna ráðherrum.

Ég þakka fyrir þau góðu orð sem starfsmenn ráðuneytisins hafa fengið um þessa skýrslu og vinnu hennar. Ég ætla að leyfa mér að segja að það er mjög ánægjulegt að vinna í slíku umhverfi sem þar er með gríðarlega hæft og gott starfsfólk í kringum sig alla daga.

Ef ég fer aðeins yfir nokkur atriði þá hafa menn töluvert rætt um mikilvægi viðskipta. Ég deili að sjálfsögðu þeim skoðunum með þingmönnum, hvort sem það er á vettvangi EES samstarfsins, þ.e. milli EFTA-ríkjanna og EFTA yfirleitt, eða við Evrópusambandið eða við önnur ríki. Hér veltu menn því eðlilega fyrir sér hvort við ættum sóknarfæri annars staðar en á Evrópumarkaði. Það eigum við svo sannarlega, enda hafa íslensk fyrirtæki verið dugleg að sækja sjálf fram á slíka markaði. Þau hafa líka verið mjög dugleg að sækja þjónustu til utanríkisþjónustunnar eða undirstofnunar hennar, Íslandsstofu, þegar kemur að nýjum mörkuðum og leitað gömlum mörkuðum opnum. Það er oft og tíðum ekkert einfalt þegar heimurinn er jafn breytilegur eins og hann er í dag, en þó er gott að segja frá því að ásókn í þjónustu ráðuneytisins hefur sjaldan verið meiri en einmitt í dag varðandi aðstoð við nýja markaði o.s.frv.

Mig langar að koma hér með eitt atriði varðandi gerð fríverslunarsamninga. Það er mjög mikilvægt þegar við gerum fríverslunarsamninga og mætum þar til leiks að við höfum eitthvað fram að færa. Það er mikilvægt fyrir okkur að horfa á heildarmyndina þegar við erum í því góða verkefni um leið að við reynum að bæta hag almennings hér heima hvað varðar lækkun á tollum og afnámi gjalda. Það eru verðmæti sem við notum í skiptum þegar gerðir eru slíkir samningar varðandi útflutning okkar. Það eru því margar hliðar á öllum svona málum.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði NATO að nokkru umtalsefni, sem er skiljanlegt. Hv. þingmaður hefur ákveðnar skoðanir á því bandalagi og veru okkar þar. Ég ætla ekki að fara djúpt í þá umræðu en ætla þó að segja að hvers konar mannréttindabrot eða önnur brot sem kunna að vera stunduð eru óásættanleg. Það skiptir ekki máli hver fremur þau, ef sönnur eru færðar á slíkt á það að sjálfsögðu að fara í þann farveg sem slík mál eiga að fara í.

Hv. þingmaður ræddi líka forsetakosningar í Bandaríkjunum lítillega og nefndi þar einn frambjóðanda sérstaklega sem ég deili nú, held ég, engum skoðunum með, sem er ágætt að koma hér á framfæri.

Varðandi þær viðræður sem tengjast fríverslunarsamningum og viðskiptum sem við köllum TiSA í daglegu tali er alveg ljóst og við Íslendingar höfum lagt á það áherslu við önnur ríki að taka okkur til fyrirmyndar í því að opna á þá vinnu sem þau standa fyrir.

Það var athyglisvert sem fram kom í máli eins hv. þingmanns, ég held það hafi verið hv. þm. Óttarr Proppé sem nefndi flóttamannavandann, þ.e. hver vandinn væri í raun. Auðvitað er vandinn sá sem býr til það umhverfi að flóttamenn þurfa að flýja. Það eru stríðsátök, efnahagslegar hörmungar, náttúruhamfarir og annað. Það er að sjálfsögðu vandinn. Þegar hins vegar hundruð þúsunda eða milljón flóttamenn koma til Evrópu verður til ákveðinn vandi þar. Okkar nálgun hefur gjarnan verið sú að gera það sem við getum varðandi það að bjóða húsaskjól á Íslandi og betra líf fyrir flóttamenn, en það skiptir gríðarlega miklu máli að við höldum áfram að styrkja það starf sem á sér stað á þeim vettvangi þar sem hörmungarnar eru hvað mestar.

Nokkrir þingmenn, þar á meðal hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, nefndi mikilvægu grunnstoðina í utanríkismálum okkar og ekki síst varnar- og öryggismálum okkar. Þar er ég algjörlega sammála hv. þingmanni. Það er mikilvægt að öryggis- og varnarmál okkar séu vel tryggð. Við erum herlaus, lítil þjóð sem þurfum að reiða okkur á vini og bandamenn þegar kemur að þessu.

Hv. þingmenn nokkrir hafa nefnt jafnréttismálin. Þau hafa skipað drjúgan sess í vinnu ráðuneytisins núna undanfarin ár. Sem betur fer fórum við inn á þann vettvang þar sem eftir okkur er tekið og við höfum margt fram að færa. Við höfum einbeitt okkur að því að fá karla til að taka þátt í jafnréttisumræðunni sem verið hefur skemmtilegt verkefni. En mikil ósköp er langt í land þar, það verður að segjast eins og er. En við höldum að sjálfsögðu áfram.

Ég kom aðeins inn á möguleika á að sækja viðskipti út fyrir Evrópu, það er mikilvægt verkefni. Á næstu vikum verður væntanlega skrifað undir fríverslunarsamning við Filippseyjar á vettvangi EFTA. Viðræður eru í gangi við fleiri ríki eða ríkjabandalög, nokkur hreyfing er á Mercosur-bandalaginu í Suður-Ameríku. Við erum að vinna að uppfærslu á samningi okkar við Kanada. Nokkrir hlutir eru í bið. Ég nefni þar Indland og Víetnam, en við höfum lagt áherslu á að hreyfa við viðskiptum í báðum löndunum. Það er því ekki aldeilis svo að ekkert sé í gangi, enda var hv. þingmaður alls ekki að segja neitt slíkt.

Mig langar aðeins að nefna hér varðandi EES-samninginn að hann er okkur mjög mikilvægur í dag og er það skásta sem í boði er eins og staðan er í dag. Við eigum að sjálfsögðu að nýta okkur hann. Hann er mikilvægur fyrir íslensk fyrirtæki, að hafa aðgang óheftan sambærilegan og önnur fyrirtæki Evrópu. Um það snýst þessi samningur fyrst og fremst, að þau lönd sem eru á EES-svæðinu sitji við sama borð. Þar af leiðandi verðum við Íslendingar að uppfylla ákveðnar skyldur sem þó eru að sjálfsögðu takmarkaðar með stjórnarskrá okkar, fyrst og fremst varðandi ákveðnar skyldur varðandi fyrirtæki okkar og atvinnulíf.

Hér hefur aðeins verið komið inn á samskipti okkar við Rússland og viðskiptaþvinganir. Ég ætla ekki að fara djúpt í það en segi þó að þar er ástandið ekki gott. Rússar hafa verið viðskiptaþjóð okkar og við höfum átt í ágætu samstarfi við þá um áratugaskeið. Það er vont til þess að hugsa að við skulum vera á þessum stað í því samstarfi með okkar ágætu vinum þar. Vonandi leysast þau vandamál sem þar eru í veginum þannig að við getum tekið upp eðlileg samskipti.

Ég þakka þeim sem minnst hafa á borgaraþjónustu, eins og hv. síðasti ræðumaður hér, hv. þm. Willum Þór Þórsson. Mikilvægi hennar er gríðarlegt og eins og ég kom inn á í ræðu minni eru um 30 þúsund verkefni, tilkynningar eða fyrirspurnir sem koma inn á borð utanríkisþjónustunnar á hverju ári. Það tekur þó nokkurn tíma og mannafla og vinna úr slíku. Auðvitað er sumt af því léttvægt en annað er grafalvarlegt. Annað snýst um líf fólks og aðstæður sem þetta ágæta fólk okkar hefur lent í fyrir slysni eða klaufaskap, viljandi eða af barnaskap, eða hvernig sem það er, en við reynum við að sjálfsögðu að greiða úr því.

Aðild eða viðræður við Evrópusambandið voru nefndar hér af einum eða tveimur þingmönnum. Það er svo sem hægt að ræða Evrópusambandið endalaust, það sem slíkt verður alltaf í umræðunni. Það er búið að vera í umræðunni í Evrópu síðan það var stofnað og verður það áfram. Við munum ekki losna við að ræða Evrópusambandið en við erum ekki aðilar að því sambandi. Við erum ekki í neinu aðildarferli. Það liggur engin umsókn fyrir um aðild að Evrópusambandinu fyrir Íslands hönd, þar hefur ríkisstjórnin tekið af allan vafa um og Evrópusambandið hefur í rauninni gert það líka.

Að svo komnu þakka ég fyrir umræðuna. Ég þakka samstarfið við utanríkismálanefnd og alþingismenn um utanríkismál. Ég þakka líka að sjálfsögðu starfsmönnum ráðuneytisins fyrir þá vinnu sem lögð var í skýrsluna.