145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra sést lítið í þinginu þessa dagana. Hann er væntanlega einhvers staðar í góðu skjóli, ekki bara með fjármuni fjölskyldunnar heldur með jarðsprengjurnar eða handsprengjurnar sem hann varpar óspart inn í umræðuna úr sínu örugga skjóli.

Eitt nýlegasta dæmið er tillaga forsætisráðherra um nýja staðsetningu Landspítalans sem var vissulega sprengja inn í umræðuna um heilbrigðismálin og þau áform sem fest höfðu verið niður um að bæta úr ömurlegum aðstæðum þjóðarsjúkrahússins.

Það er nánast sama hvert litið er í ranni ríkisstjórnarinnar þessa dagana, hún virðist vera komin að fótum fram og hennar erindi þrotið —

Virðulegi forseti. Það væri gott að fá hljóð í salnum.

(Forseti (EKG): Forseti tekur mjög undir það.)

Takk fyrir. Loksins vorum við sammála. [Hlátur í þingsal.]

Ríkisstjórnin virðist vera komin að fótum fram og hennar erindi þrotið. Það er sama hvert litið er. Ef við lítum á eignastefnuna sjáum við deilur um sölu bankanna og hvernig að þeim skuli staðið. Húsnæðismálin, nú er útlit fyrir að stjórnarandstaðan þurfi að bjarga hæstv. félagsmálaráðherra í því máli og koma á nýju húsnæðiskerfi því að ekki virðist Sjálfstæðisflokkurinn ætla að gera það.

Fyrir þinginu liggur frumvarp um afnám af einkasölu áfengis, svokallað brennivínsfrumvarp. Ef það yrði gert að lögum fyrir tilstuðlan stjórnarflokkanna hér gæti það orðið til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra þyrfti að segja af sér sem æðsti ábyrgðarmaður ríkjandi áfengisvarnastefnu og þeirra undirstofnana ráðuneytisins sem hafa eindregið lagst gegn því frumvarpi.

Í ferðamálum gerist ekki neitt. Slysum fjölgar (Forseti hringir.) á ferðamönnum án þess að púst heyrist úr ranni ráðherrans sem fer með þau málefni. Í samgöngumálum gerist ekkert. Engin samgönguáætlun er í gildi.

Virðulegi forseti. Innviðirnir eru að morkna, ekki bara í samgöngukerfinu heldur í samfélaginu sjálfu. Það sýnir að núna er hyldjúp gjá milli stjórnvalda og almennings í þessu landi. (Gripið fram í.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna