145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er okkur mikilvæg og ójafnvægi í náttúrunni getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir afrakstur fiskstofna.

Eyjafréttir í Vestmannaeyjum eru með grein byggða á fyrirlestri Sindra Viðarssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, þar sem hann fjallar um afrán loðnu. Hann tekur dæmi um árið 2005 þegar veidd voru 1.050 þús. tonn af loðnu. Þá er talið að samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar hafi fiskar étið alls 1,3 millj. tonna af loðnunni, hvalir 1–2 millj. tonna, sjófuglar 340 þús. tonn og veiðarnar sem sagt rúm 1 milljón, samtals 4,2 millj. tonna.

Ég vil setja þetta í samanburð við það sem er að gerast í dag þegar kvótinn á loðnu er 175 þús. tonn og hvölum hefur fjölgað gríðarlega. Hnúfubak hefur fjölgað síðustu áratugina úr 2 þús. dýrum í 14 þús. dýr og það er talið að þessi stórhveli éti á dag á bilinu 600 kíló til 1,3 tonn.

Í greininni sem byggir á hinum merka fyrirlestri Sindra Viðarssonar segir að í ár hafi hvalir verið 18–24 daga að éta allt það sem við máttum veiða á þessu ári. Þá var ekki tekið tillit til þess að af þessum 175 þús. tonnum veiddu Norðmenn 45 þús. tonn, Grænlendingar 19 þús. tonn og Færeyingar 9 þús. tonn. Svo fóru 5,3% í potta að sjálfsögðu og 95 þús. tonn fóru til íslenskra útgerða.

Hér er mál sem við þurfum að skoða, virðulegi forseti. Ef við afsölum okkur réttinum til að veiða hvali sem eru stór hluti lífskeðjunnar fylgir því mikil hætta. Missum ekki sjónar á því að komandi kynslóðir geti veitt hval til manneldis og til að viðhalda lífskeðjunni.


Efnisorð er vísa í ræðuna