145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það liggur nú fyrir að upplýsingar sem forsætisráðherra hafði af hálfu ríkisins varðandi kröfuhafa föllnu bankana voru gríðarlega miklar. Hann bjó yfir öllum þeim upplýsingum sem ríkið bjó yfir gagnvart þeim á sama tíma og hann var, skulum við segja, í nánum tengslum við kröfuhafa. Það liggur líka fyrir að hæstv. forsætisráðherra ætlaði ekki að upplýsa um þessi tengsl sín og hagsmuni, heldur gerði það vegna þess að fjölmiðlar voru farnir að spyrja. Fjölmiðlar komust að þessu og þess vegna ákvað forsætisráðherra að upplýsa þessi tengsl sín.

Það liggur líka fyrir að forsætisráðherra upplýsti ekki fjármálaráðherra, formann annars stjórnarflokksins, um þá hagsmuni sem þarna lágu undir af hálfu forsætisráðherra eða tengsl hans við kröfuhafa. Það kom fram í ræðu fjármálaráðherra hér í gær. Fjármálaráðherra sagði sömuleiðis að það væri forsætisráðherra að svara fyrir þetta mál en ekki hans. Taldi fjármálaráðherra að forsætisráðherra mundi gera það yrði hann inntur eftir því.

Ég bauð upp á það í ræðu á miðvikudaginn að forsætisráðherra kæmi hér og gerði grein fyrir máli sínu. Forseti Alþingis hafnaði því, taldi enga ástæðu til þess. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það er mjög alvarlegt mál þegar forsætisráðherra landsins er staðinn að því að haga sér með þeim hætti sem hér hefur verið upplýst um og hann sjálfur upplýsti að hluta til. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann hyggist bregðast við þessu með einhverjum hætti. Forseti þings hefur þegar hafnað því að biðja forsætisráðherra að koma hér til þings og gera þinginu grein fyrir þessu máli frá sínum bæjardyrum séð. Ég spyr forseta hvort hann hyggist bregðast við þessu með einhverjum öðrum hætti, t.d. með því að vísa málinu til þeirra stofnana sem hugsanlega gætu og ættu að vera að fjalla um þessi mál. Ég nefni umboðsmann Alþingis, ég nefni Fjármálaeftirlitið og fleiri aðila sem eiga að fjalla um mál þegar um svo ríka hagsmuni (Forseti hringir.) er að ræða sem hér um ræðir og ég hef vísað til. Hyggst forseti Alþingis bregðast við þessu máli (Forseti hringir.) með einhverjum hætti eða láta það bara dingla áfram?


Tengd mál