145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[11:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um að hér er verið að festa í lög gríðarlega mikilvæg ákvæði. Það er mikið fagnaðarefni að við séum hér að stilla saman strengi til að efla okkur öll og samfélagið í heild í baráttunni gegn heimilisofbeldi.

Í síðustu viku birti nefnd Sameinuðu þjóðanna tilmæli til íslenskra stjórnvalda varðandi ákvæði kvennasáttmálans sem er ekki framfylgt með viðeigandi hætti á Íslandi. Þar er meðal annars talað um tafarlausa aðgerðaáætlun gegn kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi, að tryggja fjármagn og mannafl til að lögregluembætti úti um allt land geti tekið upp verklag lögreglunnar í Reykjavík í ofbeldismálum og að grípa tafarlaust til aðgerða til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti og í háttsettum stöðum innan utanríkisþjónustunnar.

Hér er stigið skref í áttina að því að koma til móts við þessar sjálfsögðu ábendingar Sameinuðu þjóðanna og ég vænti þess að við þingheimur verðum áfram samferða í því að gera Ísland að betra samfélagi fyrir bæði kynin. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)