145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

dómstólar.

615. mál
[11:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ítarleg frumvörp og ítarlega framsöguræðu. Einungis tvö atriði sem ég vildi spyrja sérstaklega út í í ljósi þessa, annars vegar ákvæði 12. gr. um heimild ráðherra til að skipa dómara sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, þar sem gert er ráð fyrir að heimilt sé að gera það ef Alþingi samþykki tillögur ráðherra þess efnis. Það sem ég vildi fá að vita er hvernig skilja má það þegar segir að skipa megi í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum til að hljóta skipun í embætti. Er þá gert ráð fyrir að dómnefndin hafi tvíþætt mat, annars vegar um almenn skilyrði sem dómaraefni þurfa að uppfylla og þá er heimilt að velja með tilstyrk Alþingis eitthvert þeirra, og svo hins vegar þá sem eru taldir hæfastir? Mér finnst þetta ekki alveg ljóst af því að gert er ráð fyrir að valdir séu þeir sem eru hæfastir, einn eða fleiri, en síðan er talað um öll skilyrði í seinni hluta málsgreinarinnar.

Síðan hvað varðar 54. gr. um endurupptökunefnd þá vildi ég spyrja sérstaklega hvort sú nefnd muni samkvæmt þessu frumvarpi geta ákveðið með endanlegum hætti upptöku dómsmáls. Ég skildi dóm Hæstaréttar þannig að hann væri að segja að það þyrfti dómstól til að endurupptaka mál. En hér er gert fyrir stjórnsýslunefnd, það segir að þetta skuli vera sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd. Mun hún taka ákvörðun sem sætir síðan endurmati dómstólsins eða mun hún taka endanlega ákvörðun sem sætir ekki endurmati dómstólsins?