145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi faglegt mat í ráðuneytinu er ástæða til að undirstrika það eins og fram kemur í frumvarpinu og greinargerð að við ákvörðun í friðlýsingu í ráðuneytinu verður að sjálfsögðu stuðst við ráðgjöf stofnunarinnar og sérfræðinga þeirra sem veita ráðgjöf hjá henni. Það er því óþarfi að flytja þá starfsmenn inn í forsætisráðuneytið því að stofnunin mun áfram hafa það hlutverk með hendi að veita þá ráðgjöf.

Hvað varðar samráðið var Capacent fengið til að vinna að fýsileikakönnun á helstu valkostum sem til greina kæmu, eins og ég nefndi í framsöguræðu. Í því skyni voru haldnir fundir með hagsmunaaðilum, viðtöl tekin við fjölmarga starfsmenn stofnananna ásamt því að ýmsar tillögur voru ræddar á fundum stýrihópsins. Reyndar er listað í greinargerð með frumvarpinu hvert leitað hafi verið varðandi samráðið. Ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að lesa þann lista: Héraðsskjalasafn Kópavogs, Minjastofnun Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Íslenskar fornleifarannsóknir ehf., Skipulagsstofnun, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, fornminjanefnd og húsafriðunarnefnd.