145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[13:51]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að ítreka það sem ég nefndi hér áðan að þetta mál hefur átt sér langan aðdraganda og mikil vinna hefur farið í að undirbúa það, gera það sem best úr garði. Sú vinna hefur meðal annars falist í því að ræða við sem flesta sem að málinu koma og hafa þekkingu á þessum málaflokki. Ráðgjafarfyrirtæki var fengið sérstaklega í að vinna þetta sem faglegast og það tók sér góðan tíma í það. Ég nefni sem dæmi að síðastliðið sumar, held ég hafi verið, voru send út 50 bréf til að leita álits varðandi ýmis efni þessa máls og unnið var úr því í framhaldinu til viðbótar við allt það samráð sem ég hef þegar nefnt.

Það er hins vegar ekkert nýtt og telst kannski regla frekar en undantekning að sameining stofnana veki ugg og valdi áhyggjum hjá starfsmönnum sem eru ekki vissir um hvað sameiningin kunni að hafa í för með sér þó að reynt sé að útlista það mjög vel. En reynslan er líka sú, virðulegur forseti, að þegar slíkar sameiningar eru um garð gengnar þá hefur mjög oft dregið úr slíkum áhyggjum og þær hafa jafnvel horfið mjög skjótt. Þær eru eðlilegar, virðulegur forseti, þegar breytingar eiga sér stað. Það er eðlilegt að menn hafi áhyggjur og vilji passa upp á eigin stöðu, en með frumvarpinu er reynt að koma til móts við alla starfsmenn beggja stofnana. Eins og ég gat um áðan er tryggt að ekki standi til að segja neinum upp.