145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[13:53]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að sameiningar stofnana eru yfirleitt umdeildar. Þess vegna er svo mikilvægt að vanda til verka. Við höfum dæmi um sameiningar sem hafa heppnast gríðarlega vel, menn hafa unnið málin mjög vel, og einnig dæmi um misheppnaðar sameiningar þar sem kannski hefur verið erfitt að koma stofnunum almennilega í gang aftur eftir slíkar sameiningar.

Mig langaði aðeins til að spyrja, af því ég á ekki von á því að nokkur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins muni taka þátt í þessari umræðu, en þetta mál er búið að fara í gegnum ríkisstjórn þannig að ég vil fá það staðfest hjá hæstv. ráðherra, að fullur stuðningur sé í þessu máli hjá samstarfsflokknum, hann verður bara að svara fyrir hann. Væntanlega mun enginn sjálfstæðismaður taka þátt í umræðunum. Kannski ein spurning í lokin: Ég upplifi, þegar ég les þetta, að hlutverk húsafriðunarnefndar verði mun veigaminna, kannski ekki óskýrara en miklu veigaminna en nú er. Það finnst mér áhyggjuefni. Mér finnst mikilvægt að úthlutun fjármagns til húsaverndunar sé í mjög faglegu ferli.