145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[13:55]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að nefna dæmi um sameiningu stofnana sem var mjög umdeild fyrir fáeinum vikum en ég heyri ekki annað en að hafi heppnast mjög vel. Þar er ég að tala um sameiningu Þróunarsamvinnustofnunar við utanríkisráðuneytið. Þar voru miklar áhyggjur, í sumum tilvikum mjög svipaðar því sem menn ræða hér. En um leið og þetta gekk í garð sáu menn að þetta hafði verið vel undirbúið og áhyggjurnar ástæðulausar.

Hvað varðar afstöðu samstarfsflokksins til þessa máls segir það sig nú eiginlega sjálft að það er búið að afgreiða þetta úr ríkisstjórn, úr þingflokkum stjórnarflokkanna, þannig að ég þarf nú ekki að fara að útlista það neitt nánar, auk þess sem þetta er, eins og ég vísaði til í upphafi, í raun í samræmi við stjórnarsáttmálann og verður að framfylgja honum. Eins og virðulegur forseti sér hafa menn tekið sér tíma í að gera þetta vel.

Hvað varðar húsafriðunarnefnd er staða hennar styrkt frekar en hitt vegna þess að hér er sérstaklega kveðið á um að hún skuli vera stofnuninni til ráðgjafar til að bæta úr því að skortur var á slíku ákveðið ár.