145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[13:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég trúi ekki að það komi hæstv. forsætisráðherranum á óvart að hér sé spurt út í samráð. Það fólk í samfélaginu sem mest hefur vit á þessum málum, ekki endilega starfsfólk þessarar stofnunar heldur fólk í þessum geira, fólk sem hefur mesta kunnáttu í þessum efnum, hefur miklar áhyggjur af þessari sameiningu. Sagt er hreint út að ekkert samráð hafi verið haft, það hafi kannski verið haldinn einn fundur. Fólk segir: Nú á að keyra þetta í gegn á ógnarhraða án þess að svokölluð fagleg sjónarmið séu höfð til hliðsjónar eða þau sjónarmið sem eiga við um þessa grein og það hvernig þessum málum verði best fyrir komið. Ég trúi ekki að það hafi farið fram hjá hæstv. forsætisráðherra. Hann hlýtur að hafa heyrt það eins og ég. Það er í öllum fréttatímum og í greinum og alls staðar. Ég er því svolítið á þeim slóðum.

Á blaðsíðu 13 í greinargerðinni stendur: „Hagsmunaaðilar vöktu athygli stýrihópsins á að þörf sé á aukinni samhæfingu í starfsemi minjaverndar og minjavörslu.“

Mig langar til að spyrja: Hvaða hagsmunaaðilar voru það sem vöktu sérstaklega athygli á þessu?