145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[13:58]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Síðasta atriðið sem hv. þingmaður spurði um kemur úr niðurstöðu Capacent. En svo ég ítreki það eina ferðina enn var gengið mjög langt í því að tryggja faglegan undirbúning og samráð við gerð þessa frumvarps og leitað til sérstaks ráðgjafarfyrirtækis, leitað út fyrir ráðuneytið, til þess að sú vinna gengi sem best. Þar lagðist margt á eitt og voru fyrirtækið og ráðuneytið búin að hafa samráð við fjölmarga aðila.

Ég get svo ekki annað en ítrekað það sem ég benti á áðan að það er alveg eðlilegt að sameiningar, breytingar á starfshögum, valdi fólki áhyggjum meðan á þeim stendur. Ég þekki fá dæmi þess að sameiningar ríkisstofnana hafi ekki valdið óróa um tíma og meira að segja líka stundum þegar stofnunum hefur verið skipt upp.

Ég minni á það í þessu samhengi að ekki er langt síðan Minjastofnun varð til og má segja að með þessu sé dreginn lærdómur af reynslu þess tiltölulega stutta tíma sem liðinn er frá því að þessu var skipt upp og Minjastofnun varð til. Ég man satt best að segja ekki nákvæmlega hvernig umræðan var þá en ég man ekki betur en að það hafi líka valdið ýmsum áhyggjum á sínum tíma. Með þessu er verið að draga lærdóm af reynslu þessa tímabils og gera þá stofnun sem best í stakk búna til að sinna hlutverki sínu þannig að úr verði eitthvað sem er meira en summa partanna, stofnun sem er sterkari en hinar stofnanirnar hvor fyrir sig.