145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:02]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Með því frumvarpi sem hér liggur fyrir til laga um breytingu á lögum um menningarminjar og fleiri lögum, er farið inn á fimm, sex lagabálka um minjavernd og -vörslu og lagt til að Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands verði sameinuð í eina stofnun með flutningi tiltekinna verkefna til ráðherra með það að markmiði að minjaverndin verði „hjá sameinaðri stofnun á grundvelli skilvirks regluverks með virðisauka að leiðarljósi fyrir samfélagið“, eins og það er orðað svo fjálglega í greinargerð. Í þessu skyni skal stofnanakerfi málaflokksins stokkað upp og Minjastofnun Íslands og Þjóðminjasafnið sameinuð í eina stofnun, þó þannig að tiltekin verkefni séu færð til ráðherra ásamt því að einstökum ákvæðum laga um menningarminjar sé breytt til að auka skilvirkni í málsmeðferð stofnunarinnar, eins og segir í frumvarpinu.

Í greinargerð með frumvarpinu er ávinningnum lýst þannig að um verði að ræða stærri og öflugri stofnun með skilvirkara regluverk að vopni sem muni skila samfélaginu þeim virðisauka sem stefnt sé að. Nú er frumvarpið sem sagt komið fram og ekki verður betur séð en standi til að keyra það hér í gegn á ógnarhraða. Skemmst er frá því að segja að fagfólk og fræðimenn í minjavörslu og varðveislu menningarverðmæta á Íslandi hefur lokið upp einum rómi og lýst þungum áhyggjum og andstöðu við þessi áform og gagnrýnt harðlega að ekki skuli hafa verið tekið tillit til fagaðila við samningu frumvarpsins. Um þetta hafa margir tjáð sig. Fornleifafræðingar, safnafólk, arkitektar, prófessorar við Háskóla Íslands og fleiri sem hafa harðlega mótmælt þessum áformum forsætisráðuneytisins um að sameina Minjastofnun og Þjóðminjasafnið.

Eins og bent er á í þeim athugasemdum og blaðagreinum og bréfum sem þingmönnum hafa borist um þetta mál er vandséð að nokkur fjárhagslegur ávinningur sé af þessum breytingum og afar óljóst hversu mikill kostnaður fer í að efla stjórnsýsluna sem verður í forsætisráðuneytinu. Frumvarpið er augljóslega sniðið að því að forsætisráðherra er persónulega áhugamaður um húsavernd. Slíkt áhugamál er gott og blessað en forsætisráðherrar koma og fara. Þeir hafa ólík áhugamál. Vonandi verður núverandi forsætisráðherra ekki mjög þaulsætinn í sínum ráðherrastól. Það er með öðrum orðum ekki heppilegt að sníða verksvið ráðuneyta eftir áhugamálum ráðherra hverju sinni.

Stofnanirnar sem til stendur að sameina eru afar ólíkar innbyrðis. Með frumvarpinu mun starfsemi Þjóðminjasafnsins skerðast verulega og það mun draga úr vægi þess sem höfuðsafns samkvæmt safnalögum. Þeir sem best þekkja til í málaflokknum hafa líka bent á að frumvarpið er fljótfærnislega unnið. Því til sönnunar er bent á ýmsar rangfærslur í frumvarpinu sem sýna að það er unnið í flýti og án samráðs við fag- og hagsmunaaðila. Þar hefur sérstaklega verið bent á áhrif húsafriðunarlaga á almenning og einnig að fyrirmyndin sé sótt til Noregs en þar byggir kerfið á aðgreiningu stjórnsýslu og rannsókna, öfugt við það sem sameiningin sem boðuð er í frumvarpinu hefur í för með sér og mun leiða til skerðingar á frelsi til vísindarannsókna að mati þeirra sem til þekkja.

Safnafólk og fræðimenn hafa líka bent á að ferlið í kringum sameininguna hefur einkennst af miklum hraða og ónákvæmni. Mörgum spurningum er enn ósvarað varðandi skipulag, verkaskiptingu og ýmsa kostnaðarliði. Félag fornleifafræðinga til dæmis mótmælir því harðlega að frumvarpið verði að lögum og bendir á ýmsa hnökra sem eru á frumvarpinu og afleiðingar sem af því geta hlotist.

Minjavarsla og minjarannsóknir á Íslandi hafa um árabil glímt við fjárskort og afskiptaleysi sem hefur leitt til þess meðal annars að rannsóknum er ekki sinnt sem skyldi. Þó náðist ákveðinn stöðugleiki í minjavörslunni með stofnun Minjastofnunar Íslands árið 2013. En það er engu að síður raunveruleg vá sem steðjar að íslenskum menningararfi og birtist í margvíslegum eyðingarmætti, bæði eyðingarmætti náttúrunnar þar sem fornleifar liggja í jörðu og eyðingarmætti ráðleysunnar um þennan málaflokk. Félag fornleifafræðinga metur það svo að frumvarpið sé afturför og muni hafa varanleg og skaðleg áhrif á starfsumhverfi fornleifafræðinga og minjarnar í landinu. Félagið telur alvarlega vegið að frelsi til vísindarannsókna með tillögu um miðstýrða rannsóknarstefnu í fornleifafræði og segir að verði frumvarpið að lögum muni það binda endi á um 150 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands á sviði fornleifarannsókna. Þetta er umhugsunarefni.

Ég vil líka vísa til greinar sem Orri Vésteinsson, fornleifafræðingur og prófessor í fornleifafræði, hefur nýlega látið birta um þetta mál. Þar kemur fram að af þeim hundruðum staða sem skemmast á hverju ári hér á landi sé aðeins brot kannað með rannsóknum og engar heildstæðar áætlanir séu til um hvernig eigi að bregðast við þeirri ógn sem steðji að þeim þúsundum sem fyrirsjáanlega munu hverfa á næstu árum og áratugum. Hann bendir enn fremur á að með frumvarpinu sé í reynd verið að kljúfa Minjastofnun í tvennt og leggja enn frekari hindranir í veg rannsókna og að það leysi engan vanda. Eins og hann segir, með leyfi forseta: „Það dregur athyglina frá hinum raunverulegu ógnum, veikir rannsóknarinnviði og torveldar björgunarstarfið.“

Stjórnvöld, og í þessu frumvarpi er það alveg ljóst, hafa ekki boðið fram neina faglega framtíðarsýn eða langtímaáform sem heitið geta í málaflokknum, að minnsta kosti ekki í samráði og góðu samstarfi við þá sem gerst til þekkja í þessum geira. Eins og minjageirinn bendir á hafa þau ekkert fram að færa nema innihaldslaust hringl með stofnanir. Í þeim efnum er ekki hlustað á sjónarmið þeirra sem starfa á vettvangi, fólksins sem af natni og nákvæmni, moldugt upp að hnjám, stendur í því að bjarga íslenskum fornminjum og íslenskum menningararfi, eins og bent hefur verið á í blaðaskrifum.

Ég vil líka vísa til stjórnar Félags íslenskra safna og safnmanna sem sömuleiðis lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðrar sameiningar Minjastofnunar og Þjóðminjasafnsins og telur að frumvarpið þýði að setja þurfi skorður á rannsóknarstarf Þjóðminjasafns Íslands til að hægt sé að gæta sjónarmiða samkeppnislaga vegna sameiningar. Félagið telur að með sameiningu hverfi Þjóðminjasafnið frá rannsóknarhlutverki sínu þar sem slíkt samræmist ekki hlutverki fyrirhugaðrar Þjóðminjastofnunar sem við breytinguna verður þá stjórnsýslustofnun. Félagið bendir á að breytingin muni þannig rýra gildi Þjóðminjasafns Íslands sem og trúverðugleika þess, en almennt hefur verið talið innan safnafræði að rannsóknarhlutverk safna renni stoðum undir þá framþróun og nýsköpun sem nauðsynleg sé í safnastarfi. Það hlutverk hefur Þjóðminjasafn Íslands haft með höndum. Bent er á að litlu skipti þótt Þjóðminjasafn Íslands verði undirstofnun fyrirhugaðrar Þjóðminjastofnunar þar sem ekki verði um raunverulegan aðskilnað framkvæmdar- og stjórnsýsluvalds að ræða. Sú stefna var upphaflega mörkuð með vinnu að lögum um menningarminjar þar sem nauðsynleg aðgreining stjórnsýslu og framkvæmdar var fest í sessi. Hér má minna á að Þjóðminjasafn Íslands er eitt af þremur höfuðsöfnum auk Listasafns Íslands. Stofnanirnar sem til stendur að sameina eru eins og fyrr segir afar ólíkar innbyrðis. — Ég hefði mátt nefna hér líka Náttúruminjasafn Íslands.

Það er hætt við því að skerðingin sem óhjákvæmilega verður á starfsemi Þjóðminjasafnsins við þessa fyrirhuguðu breytingu muni draga úr vægi þess sem eins af þremur skilgreindum höfuðsöfnum samkvæmt safnalögum.

Safnmenn gagnrýna, eins og ég hef áður sagt, undirbúning frumvarpsins sem virðist að engu leyti hafa hag starfsemi stofnananna í fyrirrúmi, hér sé verið að ráðast í miklar breytingar á skömmum tíma án tilhlýðilegs samráðs við hagsmunaaðila og ámælisvert sé að forsendur frumvarpsins og þær ástæður sem liggja að baki fyrirhugaðrar sameiningar séu óljósar.

Virðulegi forseti. Þeir sem best þekkja til hafa nær einhuga lagst gegn frumvarpinu og fyrirhugaðri sameiningu Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Þessir aðilar hafa kallað eftir því að í staðinn fyrir að keyra þetta áfram svona verði farið í víðtækt samráð við fagfólk og fræðafólk á sviði safna, rannsókna og minjavörslu á Íslandi. Undir þetta get ég heils hugar tekið og hlýt að harma það með þeim sem hafa tjáð sig að ekki skuli hafa verið hlustað á þennan hóp og ef marka má umsagnir þeirra sem skrifað hafa um málið að undanförnu hefur þeim frekar verið sendur tónninn og í þá hnýtt en hitt. Það væri nær fyrir forsætisráðherra að taka höndum saman við það fólk sem vinnur á sviði minjavörslu og rannsókna til að finna lausnir en að standa svona að verki.