145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:17]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni innleggið. Ég veit ekki heldur til þess að ráðgjafarfyrirtækið Capacent hafi á að skipa sérfróðum aðilum á sviði safnastarfs, minjavörslu og menningarverðmæta. Við samningu jafn víðtæks frumvarps og þess sem við ræðum hér reynir einmitt talsvert á slíka sérþekkingu, hefði maður talið. Allt sem lýtur að minjavörslu og varðveislu menningarverðmæta er vandmeðfarið og krefst bæði menntunar, þekkingar og reynslu einmitt á því sviði. En það er nú eins og annað í þessu samfélagi í dag að það er eins og alltaf sé nóg að kalla til — hvað þær heita þessar ráðgjafarstofur — Capacent, KPMG, Hagvang og hvað, til að leysa hvers manns vanda í íslenskri stjórnsýslu hvenær sem til stendur að gera eitthvað. En þar liggur auðvitað ekki svona sérfræðiþekking.

Það er auðvitað mikið áhyggjuefni í jafn viðkvæmum og mikilvægum málaflokki eins og minjavarslan og varðveisla menningarverðmætanna og safnastarfið eru þegar gengið er fram með þessum hætti, böðlast áfram í beinni andstöðu við alla sem málið varðar í þessum geira. Það er alvarlegt áhyggjuefni vegna þess að það er óþarfi. Það er óþarfi að vinna hlutina illa og hafa ekki samráð. Það er algjör óþarfi. Þarna hefði mátt standa mun betur að verki og vanda sig við þetta í sátt við alla, auk þess sem vandséð er hver þörfin er á þeim breytingum sem hér er verið að ræða.