145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:21]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Dellumál, það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur. Þetta er nefnilega alveg dæmigert dellumál. Þetta er áhugamál forsætisráðherrans, sem er blessunarlega áhugasamur um minjavernd og safnamál. En hann varar sig ekki á því að það er ekki mjög farsælt að binda slíka áhugaverða málaflokka við tiltekin ráðuneyti bara vegna þess að viðkomandi ráðherra hefur persónulegan áhuga á málinu. Ráðherrar koma og fara. Málaflokkar streyma áfram sinn þunga farveg. Það er auðvitað alveg ótrúleg stjórnsýsla og ótrúleg skammsýni að ætla að búa svo um hnútana að best sé að koma risastórum vandmeðförnum málaflokki fyrir í forsætisráðuneytinu af því að núverandi forsætisráðherra er velviljaður þeim málaflokki.

Svo er hinn góði vilji nú ekki betri eða gagnlegri en svo að málið er vanbúið og kemur hér með brussugangi inn í þingið án samráðs við hagsmunaaðilana og án þess að farið sé með nokkrum hætti eftir því litla samráði sem þó átti sér stað. Þess vegna mundi ég telja að brýnasta viðfangsefni nefndarinnar sem tekur við málinu sé að koma á því samráði sem aldrei átti sér stað, að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið og kallað er eftir að fái áheyrn. Það er náttúrlega númer eitt, tvö og þrjú. Svo verða menn að meta það í framhaldinu hvort það sé faglega og málefnalega forsvaranlegt að halda þessu máli áfram í þinginu.