145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:32]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þetta. Við erum að fara núna inn í tveggja vikna þinghlé og það er í rauninni óeðlilegt að við höfum ekki með neinum hætti rætt þetta við sjálfan hæstv. forsætisráðherra. Það hefði verið einboðið að hann hefði verið hér í óundirbúnum fyrirspurnum í gær því að það er mikil eftirspurn eftir því að fá að spyrja hæstv. ráðherra út í þessi mál og líka að hann fái tækifæri í þingsal til að útskýra sína hlið og tala við okkur. Þetta er ekki gert af neinni illkvittni, það er eðlilegt að ráðherra sem situr undir ásökunum — og hér er mál sem hefur farið í hámæli, úti um allt er verið að fjalla um þetta, bæði getgátur og skoðanir og annað slíkt — komi inn í þingið og ræði við okkur um þessi mál. Við höfum rétt á því að fá svör við þeim spurningum sem við höfum.