145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við höfum ekki fengið að ræða þetta mál við hæstv. ráðherra í þinginu. Það hefur einungis komist til tals undir liðnum um fundarstjórn forseta, því miður ekki meira en það. Tvær vikur eru fram undan án þingfunda og sama hvað mönnum finnst um málið, sama hvað mönnum finnst um það hvernig fólk talar hér eða um hvað það talar, finnst mér mjög mikilvægt að við ræðum þetta mál, jafnvel þótt það sé bara til þess að ræða umræðuna.

Mér finnst mjög óþægilegt og vont að málið sé skilið eftir á þeim tímapunkti þegar þingið er um það bil að fara í tveggja vikna frí. Það er það sem mér finnst verst.

Í pistli ráðherra sem birtist nýlega koma fram upplýsingar sem eru alveg þess virði að ræða. Það er enginn lokapunktur í þeim pistli hæstv. ráðherra. Þvert á móti er það samtal sem mér finnst mjög mikilvægt að haldi áfram. Ráðherra starfar undir þinginu, alla vega samkvæmt kenningunni. Svo er það auðvitað ekki tilfellið eins og við þekkjum, því miður, en mér finnst mjög hvimleitt að við getum ekki rætt þetta áður en þingið fer í páskafrí.