145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tel hæstv. forsætisráðherra skylt að gera þinginu grein fyrir hvað hann vill segja við því að hann og fjölskylda hans fari með fjármuni sína í skattaskjól þar sem þjóðir heims berjast nú gegn því að farið sé með fjármuni í skattaskjól vegna þess að það vekur eðlilega mikla tortryggni. Þar sitja ekki allir við sama borð. Ég sagði í morgun að það er valdaelítan og sauðsvartur almenningurinn sem þarf að búa við það kerfi, það hagkerfi og krónuna sem við búum við hér á landi.

Vald ráðherra er mikið og skyldur ráðherra gagnvart þinginu eru miklar í því að upplýsa þingið um hvað þarna er á ferðinni. Þess vegna höfum við þingmenn kallað eftir því að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) geri það á þessum vettvangi en ekki á Facebook-síðu. (Forseti hringir.) Hann hefur ekki skyldur gagnvart Facebook-umhverfinu, heldur gagnvart Alþingi Íslendinga.