145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:40]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (um fundarstjórn):

Undanfarna daga hafa nokkrir þingmenn reynt að gera eignir maka forsætisráðherra tortryggilegar í þeirri von að grafa undan trausti á pólitískum mótherja.

Lágkúran gæti vart verið meiri. Ýjað er að því að hér sé ólöglegt að eiga eignir erlendis. Það er bara alveg löglegt. Það er líka fullkomlega löglegt að eiga eignir í erlendum aflandseyjum, Bresku Jómfrúreyjunum ef því er að skipta.

Nú liggur fyrir hvernig eignirnar eru til komnar og að öllum sköttum hefur verið skilað. Það er það sem máli skiptir, sem sagt farið að lögum og allt til fyrirmyndar eins og ætla mátti.

Meðal eigna makans voru skuldabréf á föllnu bankana. Þingmenn lágkúrunnar gerðu engan greinarmun á þeim eignum, á þeim sem áttu slík skuldabréf og töpuðu þeim að mestu og þeim hrægömmum sem keyptu sér kröfur á hrakvirði til að græða. (Gripið fram í: Vondu hrægammarnir.) Þetta var lagt að jöfnu. (Gripið fram í: Var það?) Það er bara ekkert líkt með því. (Gripið fram í: Góðu hrægammarnir.)

Þeir uppnefndu maka ráðherrans hrægamm þó að hún hafi stórtapað á falli bankana. Slíkt er auðvitað algjörlega óboðlegt og grefur bara undan virðingu þessara þingmanna, flokks þeirra og alls þingsins.