145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:47]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er alveg viss um að við viljum öll fara eftir siðareglum þegar þær taka gildi en við getum ekki farið eftir siðareglum framtíðarinnar sem hafa ekki enn þá tekið gildi. (Gripið fram í: Við samþykktum þær í vikunni.) Þær taka gildi við upphaf næsta þings eins og þér er fullkunnugt um. Ég held að allir þingmenn hér muni gera grein fyrir öllu því sem þeim ber að gera grein fyrir og auðvitað hæstv. forsætisráðherra eins og aðrir.

Þeir sem hér hafa komið fram hafa gengið töluvert langt í því að draga upp þá mynd af Sigmundi Davíð forsætisráðherra, þeim þingmanni sem barðist harðast fyrir því að kröfuhafar tækju á sig afskriftir, að hann hafi í raun verið að berjast gegn afskriftum til að bæta hag maka síns. Það er ýjað að þessu í hverri þingræðunni á fætur annarri. Þetta gera sömu þingmennirnir og héldu því fram að hér væri alls ekki hægt að afskrifa kröfurnar, það væri óraunhæft. En forsætisráðherra missti aldrei móðinn, hann barðist fyrir sinni hugsjón og gerði það sem þurfti til að yfirstíga hindranir. Það skilaði þeim árangri sem eftir er tekið í heiminum. Forsætisráðherra var ekki í þessari baráttu til að bjarga einhverjum peningum fyrir maka sinn. (Forseti hringir.) Hann barðist fyrir hagsmunum okkar allra, einnig hag ykkar hinna, hv. þingmanna sem hér hafa freistað þess að kasta rýrð á heilindi hans í þessari baráttu.