145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég er mjög hugsi yfir því hvernig hv. þingmenn Framsóknarflokksins fara fram í þessari umræðu, sérstaklega hv. þm. Frosti Sigurjónsson. Það að við förum hvert að öðru með nafngiftum af því tagi að við köllum hvert annað þingmenn lágkúrunnar er mjög sögulegt augnablik í þingsal.

Hver er lágkúran? Hún er sú að við teljum umræðunnar virði að 8. gr. nýrra siðareglna Alþingis skipti máli. (Gripið fram í.) Í henni segir:

„Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar.“

Má ég skilja það svo að þingmenn Framsóknarflokksins telji að þessar reglur taki ekki gildi fyrr en í upphafi næsta þings og að þær snúist bara um niðurskrifaðar og samþykktar reglur en ekki það (Forseti hringir.) að þeir telji mikilvægt að viðhafa gott siðferði í störfum sínum án þess að það sé skrifað einhvers staðar niður?