145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef ákveðið að taka það ekki til mín þegar hv. þm. Frosti Sigurjónsson talar um þingmenn lágkúrunnar. Það verður að láta hreinlega eins og ekkert sé. Hvar endum við ef við ætlum að fara að taka slíkt til okkar?

Hér finnst mér málið snúast um traust fyrst og fremst. Þegar bankahrunið varð og hér hrundi efnahagur og samfélag glötuðum við trausti og við höfum barist við að byggja það upp.

Staðan er þannig að menn horfa til forsætisráðherra og velta fyrir sér hvort hann hafi talað tungum tveim og sitt með hvorri þegar kemur að skattaskjólum, þegar kemur að Tortólu, þegar kemur að hrægömmum og kröfuhöfum. Þegar þær spurningar eru uppi nægir mér (Forseti hringir.) ekki að hv. þingmenn Framsóknarflokksins komi og uppnefni aðra hv. þingmenn í salnum. Hingað verður hæstv. forsætisráðherra að koma og tala fyrir máli sínu.