145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Hún fór einmitt mjög vel yfir umsagnir sem hafa borist, bréf sem hafa borist okkur, það sem við höfum lesið í greinum og það sem fundir hafa ályktað. Hún nefnir fund frá 19. febrúar og nú er 19. mars þannig að þetta hefur legið fyrir í einhvern tíma. Þessar raddir koma úr öllum áttum, frá því fólki sem gerst þekkir til þessara mála. Það eru ekki bara fornleifafræðingar heldur líka fólk sem er í safnastarfsemi almennt og fólk sem skilur samhengi stjórnsýslu og hlutverks safna til rannsóknarvinnu og þar fram eftir götunum. Allt þetta fólk virðist vera nokkuð sammála um að sú ráðstöfun sem hér er á ferðinni muni ekki verða til bóta fyrir þessa starfsemi í landinu.

Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort hún deili þeirri skoðun með mér að hérna sé svolítið verið að láta eftir duttlungum forsætisráðherra sem auðsjáanlega, það kom bara í ljós við stjórnarmyndunina, hefur sérstakan áhuga á húsaverndun og þess vegna eigi að breyta alls konar lögum í landinu til að hann geti sinnt þessu áhugamáli sínu. Ég vil líka spyrja hvort henni finnist ekki skrýtið að ekki fylgi með skýrslan frá Capacent sem gerði þessa úttekt. Ég spurði áðan hverjir væru hagsmunaaðilarnir og það var sagt: Ja, það kom fram í skýrslu Capacent. (Forseti hringir.) Af hverju fáum við ekki Capacent-skýrsluna hér, virðulegi forseti?