145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég óska eftir því að forseti geri ráðherranum viðvart um að þingmenn óski eftir því að hann sé viðstaddur þessa umræðu. Þingmenn hafa líka ítrekað óskað eftir því að hann bregðist við ákalli um að hann greini þinginu frá því hvernig hann hyggist gera því grein fyrir þeirri stöðu sem hann er í vegna upplýsinga sem hann vísvitandi leyndi bæði þingið og þjóðina.

Svo vil ég, virðulegur forseti, spyrja fyrir forvitnissakir: Hvar eru sjálfstæðismenn? Eru einhverjir sjálfstæðismenn í húsi eða eru þeir að sinna öðrum aðkallandi störfum? Hér hefur ekki einn einasti sjálfstæðismaður sést síðan þessi umræða hófst. Maður veltir fyrir sér hvort það endurspegli ástandið á stjórnarheimilinu að hér mælir forsætisráðherra fyrir máli sem hann leggur mikla áherslu á og sjálfstæðismenn séu þá fjarri. Þeir hlaupa í burtu þegar hann talar og það endurspeglar hversu óeðlilegt ástandið (Forseti hringir.) er orðið.