145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd þingsins og hefur nokkra reynslu af meðferð ríkisfjármála. Nú hefur Ríkisendurskoðun gert úttekt á sameiningu stofnana og, ef ég þekki það rétt, heldur komist að þeirri niðurstöðu að því fylgi jafnan umtalsvert aukin útgjöld að minnsta kosti fyrstu árin eftir að ráðist er í sameiningu. Ég vil inna hv. þingmanninn eftir því hvort hún telji ástæðu til að ætla að frumvarpið muni leiða til útgjaldaaukningar og þá hvort gert hafi verið ráð fyrir henni í þeim áætlunum sem málinu fylgja.

Í öðru lagi nefndi þingmaðurinn þverpólitískt samráð. Ég vildi spyrja þingmanninn, vegna þess að hún er þingflokksformaður eins af stjórnmálaflokkunum á þinginu, hvort það hafi engin viðleitni verið af hálfu forsætisráðherra til að kynna málið og ræða það áður en það var lagt fram í fullbúnu frumvarpsformi í þinginu. Var engin aðkoma af hálfu þingflokks hennar að undirbúningi málsins? Ef svo var, hverju telur hún það sæti að þannig skuli hafa verið staðið að málum?

Hv. þingmaður er þingmaður fyrir Norðausturkjördæmi sem er auðvitað víðfemt kjördæmi og mikið þar af bæði merkilegum fornminjum og sömuleiðis húsum sem þarf vissulega að leggja áherslu á að vernda, heilu byggðarlögin reyndar í því ágæta kjördæmi. Hvernig sér hún áhrif þessara breytinga verða í kjördæminu á minjaverndina þar?