145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur ágætisræðu og tek undir að ræða hennar miðaðist við það að málið er til 1. umr. Það er nauðsynlegt að jafn viðamikið mál fái þá rýni sem er eðlileg í fyrstu umferð áður en við fáum umsagnir. Ég ætla jafnframt að taka það fram að ég hlakka til að fá faglegar umsagnir um málið af því að það er viðamikið og kannski erfitt að bera niður í allar greinar.

Það sem vakti mesta athygli mína í ræðu hv. þingmanns voru orð hennar um að frumvarpið við 1. umr. virkaði þannig á sig að það væri ekki vel unnið í grunninn. Ég ætla að fá að vísa í athugasemdir við frumvarpið þar sem segir á bls. 9 að ráðherra hafi skipað stýrihóp sem var falið það hlutverk að endurskipuleggja verkefni Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Þar segir, með leyfi forseta.

„Stýrihópnum voru sett þau markmið að skoða og gera tillögur um leiðir að endurskipulagningu stofnanakerfisins sem skilað gæti faglegum ávinningi. Þá var markmiðið einnig að gera verkaskiptingu skýrari til að auka möguleika til að bregðast við breyttum og auknum kröfum í málaflokknum auk rekstrarlegrar hagræðingar […]“.

Ef maður talar um að vinnan sé ekki nægilega vel unnin í grunninn þá hlýtur að vera litið til markmiða. Telur hv. þingmaður að frumvarpið sé þannig unnið að það nái ekki þessum tilteknu markmiðum?