145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að gera undir liðnum um fundarstjórn forseta grein fyrir því hvað til stendur að því er varðar meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég hef góða reynslu af að vera í þeirri nefnd, er varamaður þar núna og veit að þar keppist fólk við að vinna málin vel og fara ofan í saumana á þeim. Mér finnst verulegt umhugsunarefni hversu mikill munur er á því hversu vel búin mál koma til þingsins. Mér finnst almennt áhyggjuefni, forseti, að ekki skuli vera meira samræmi milli þess sem ráðherrar láta koma til þingsins. Það gengur eiginlega ekki að koma með mál sem eru í bullandi ágreiningi hjá hagsmunaaðilum inn í þingið og láta þingnefndinni eftir að reyna að stilla saman strengi eða þá að keyra málið í gegn með einhvers konar yfirgangi.

Ég hef mikla trú á því að allsherjar- og menntamálanefnd reyni (Forseti hringir.) að hlusta eftir öllum þessum röddum, gera það vel og afgreiða málið með vönduðum hætti.