145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég vil taka undir með honum þegar hann gagnrýnir þetta frumvarp. Eitt megininntak frumvarpsins er tillaga um að Þjóðminjasafn Íslands og Minjasafn Íslands verði sameinuð í eina stofnun, Þjóðminjastofnun, þó þannig að Þjóðminjasafnið verði áfram til sem höfuðsafn og um það gildi sérlög, enda þótt það falli undir hina nýju stofnun. Þetta meginefni hefur verið gagnrýnt af fræðimönnum. Sumir vilja meina að dagar Þjóðminjasafnsins séu þar með taldir sem rannsóknastofnunar, að verið að reyta af því fjaðrirnar, ef svo má segja, og það standi þá ekki undir nafni. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessu.

Í frumvarpinu er talað um að leitað hafi verið til Noregs til að skoða fyrirmyndir þaðan en síðan hafa fræðimenn sem starfa í Noregi, m.a. Þóra Pétursdóttir sem er doktor í fornleifafræði, bent á að í Noregi sé þetta einmitt þannig að stjórnsýsla og rannsóknir séu aðskildar. En það er einhvern veginn látið að því liggja í skýringartexta í frumvarpinu að við séum að gera eins og Norðmenn. Ég vil biðja hv. þingmann um að velta því fyrir sér með okkur hvert þetta leiðir okkur, bæði með Þjóðminjasafnið og hlutverk þess og eins hvaða áhrif það geti haft að setja stjórnsýslu og rannsóknir undir sama hatt.