145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er oft erfitt að taka þátt í umræðu þar sem hlutum er snúið svona á haus, eins og þegar Noregur er nefnt sem fordæmi. Það getur vel verið að eitthvað í málinu sé á einhvern hátt svipað, en í grundvallaratriðum fer þetta mál algjörlega þvert á það sem er í Noregi þar sem höfuðáhersla er á aðskilnað stjórnsýslu og rannsókna. Mér sýnist hvatamaðurinn að þessu frumvarpi líta á þau sjónarmið sem mjög léttvæg, eins og hann fatti þau ekki almennilega.

Samkeppniseftirlitið gerði athugasemdir. Til þeirra er vísað í greinargerð með frumvarpinu 2012 þegar Minjastofnun varð til. Af hverju ætli Samkeppnisstofnun geri þær athugasemdir að það eigi að vera stjórnsýsla annars vegar og rannsóknastofnanir hins vegar? Af hverju er það samkeppnismál? Er það ekki vegna þess að það eru mjög margir fagaðilar í landinu sem vilja sinna fornleifarannsóknum, það gæti verið, og þess vegna mikilvægt að leyfisveitandinn sé á einum stað og hann gæti gagnsæis og jafnræðis í úrskurðum sínum um það hver fær leyfi til fornleifarannsókna og svoleiðis? Ég get ímyndað mér það.

Síðan hefur rík áhersla verið lögð á það, vegna þess að Þjóðminjasafnið er auðvitað grundvallarstofnun í fornleifarannsóknum og grundvallarrannsóknastofnun, að rík samvinna sé á milli þessara stofnana. Þetta er módelið sem lagt er upp með. Þetta er módelið í Noregi. Það er ekki hægt annað en rekja þetta lið fyrir lið, væntanlega verður það gert í nefndinni, gagnvart þeirri fullyrðingu að verið sé að gera þetta eins og í Noregi vegna þess að í grundvallaratriðum er alls ekki verið að því.