145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það hefur komið fram í umræðum um fundarstjórn forseta að smám saman á þessu kjörtímabili hefur maður farið að venjast hlutum sem eru gjörsamlega óþolandi. Maður er farinn að venjast því að forsætisráðherra gefi lítið fyrir það að vera viðstaddur umræðu á Alþingi og annað er að það gerist ítrekað að forsætisráðherra skefur til sín það sem hann hefur persónulega áhuga á. Þetta er hegðun sem tilheyrir fólki á öðrum aldri og öðru þroskastigi, þ.e. að sitja við borðsendann og benda á það sem það vill sjá og það vill fá og það vill eiga og þeir sem sitja við borðið verða við þeim óskum af því að annars verða svo mikil leiðindi.

Þetta er áhyggjuefni í pólitík og fyrir þann lærdóm sem við ætluðum að draga af hruninu. Mig langar að biðja hv. þingmann að hugsa aðeins um það með mér að við samþykktum öll þingsályktunartillögu í september 2010 sem var sá lærdómur sem við ætluðum að draga af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010. Við ætluðum nefnilega að læra og við ætluðum að gera betur. Meðal annars ætluðum við að tryggja að Alþingi verði sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk. Það hlýtur að þýða að við tökum dellumál og leggjum þau til hliðar. Við tökum dellumál og í besta falli lögum þau og gerum þau þannig að þau séu boðleg. Við tökum ekki þátt í því að afgreiða mál í gegn sem eru ónýt frá fyrsta degi. Alþingi ályktar líka hér að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur. Hvað vill hv. þingmaður segja um þær vangaveltur að tengja þá tillögu því frumvarpi sem liggur fyrir?