145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það má alveg draga þá ályktun. Þetta er auðvitað ákveðinn prófsteinn. Í málinu um verndarsvæði í byggð duldist engum að meiri hluta þingmanna fannst málið algjört bull. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Samt var það samþykkt. Það er alltaf ömurlegt að sjá svoleiðis gerast. Núna verður maður bara að vona að þingið standi betur í lappirnar. Eitt sem var mjög mikilvægt í rannsóknarskýrslunni og í þeirri vinnu sem fór í hönd við að greina þá skýrslu og draga af henni ályktanir var að efla þyrfti sjálfstæði þingsins. Það er í svona málum sem reynir á sjálfstæði þingsins.

Ég vil nota tækifærið og hvetja hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að nálgast þetta eins og hún hefur gert í öllum öðrum málum, með gagnrýnum huga. Við eigum að vera gagnrýnin (Forseti hringir.) og eigum ekki að samþykkja neitt sem við erum á móti.