145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvernig maður eigi að hafa samráð eða muninum á því að hafa samráð við hagsmunaaðila og fagaðila annars vegar og hins vegar að vera sammála þeim. Nú hafa menn kvartað undan því að lítið samráð hafi verið haft við fagaðila en síðan fær maður gögn í hendurnar frá þeim og maður sér að það er ekki aðeins kvartað undan litlu samráði heldur er líka kvartað undan því að ekki sé hlustað á þá afstöðu sem komi fram í því samráði sem þó átti sér stað. Og það er ekki frá frá einum eða tveimur aðila, það virðist eiga við um þorra þeirra. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort brotalömin hér sé sú að samráðið við fagaðila og hagsmunaaðila hafi verið af of skornum skammti eða hvort þetta hefði átt heima í þinglegu samstarfi. Ég sé nefnilega einungis fyrir mér að þingið þyrfti að vita af þessu og taka einhverja afstöðu, koma með ábendingar, en aðalstarf hæstv. forsætisráðherra ætti að vera að hlusta á fagaðila.